Innlent

Það sem skal gera við rýmingu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Frá Neskaupstað í morgun. Allt á kafi í snjó.
Frá Neskaupstað í morgun. Allt á kafi í snjó. Sara Lucja

Lögreglan á Austurlandi hefur birt tilmæli á Facebook-síðu sinni um hvað skal gera við rýmingu. Unnið er að því að rýma hús bæði í Neskaupstað og á Seyðisfirði. 

Að minnsta kosti tvö snjóflóð féllu í Neskaupstað í morgun og hafa gluggað brotnað og bílar henst til. Unnið er að því að rýma fjölda húsa þar og íbúar þeirra beðnir um að fara í félagsheimilið Egilsbúð. 

Þá er einnig unnið að rýmingu á Seyðisfirði vegna snjóflóðahættu. Þar er hættustig í gildi og í Neskaupstað er neyðarstig almannavarna í gildi. 

Lögreglan á Austurlandi birti í dag leiðbeiningar um hvað skal gera við rýmingu. Meðal þess sem muna þarf er að taka til lyf fatnað og nauðsynleg hjálpartæki, taka með sér nauðsynjar fyrir ungabörn ef þau eru á heimilinu, loka gluggum og skilja eftir ljós í forstofu og við útidyr.

Hér fyrir neðan má sjá listann sem lögreglan birti. 

Á bæði við fyrir Neskaupstað og Seyðisfjörð.

Við rýmingu skal gera eftirfarandi:

1. Ganga tryggilega frá helstu verðmætum eða hafa þau meðferðis.

2. Taka til lyf, fatnað og nauðsynleg hjálpartæki, t.d. gleraugu og heyrnartæki o.fl. þ.h.

3. Hleðslutæki og eða hleðslubanka fyrir farsíma

4. Taka með sér nauðsynjar fyrir ungbörn ef þau eru á heimilinu.

5. Taka mat og búr fyrir gæludýr ef þau eru tekin með

6. Tryggja að matvæli liggi ekki undir skemmdum.

7. Loka tryggilega öllum gluggum og dyrum.

8. Ganga úr skugga um að hiti sé á húsinu.

9. Skilja eftir ljós í forstofu og við útidyr.

10. Skilja eftir rýmingarspjald í glugga eða á áberandi stað til staðfestingar á að hús hafi verið rýmt og það mannlaust.

11. Að þessu loknu skal halda tafarlaust til þeirrar fjöldahjálparstöðvar sem ákveðin hefur verið til móttöku/skráningar fólks eða til þess staðar sem ákveðinn hefur verið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×