Þær Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir ætla að hefja sunnudagsmorguninn á Sprengisandi með umræðu um efnahagsmálin, enn er spáð vaxtahækkun í komandi viku og órói á fjármálamörkuðum rennir stoðum undir þá skoðun að verðbólguskeiðinu linni ekki í bráð. Hvað eiga stjórnvöld að gera, hver eiga viðbrögðin að vera næstu mánuðina?
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar verður næstur - nú bregður svo við að smærri sveitarfélög sem búa yfir virkjunarkostum vilja stöðva framkvæmdir nema þau fái eitthvað miklu meira fyrir sinn snúð - hverju skiptir þetta fyrir Landsvirkjun og hennar áform?
Birgir Ármannsson er forseti Alþingis, en hann er líka maðurinn sem telur sig ekki geta opinberað álit setts Ríkisendurskoðanda í svokölluðu Lindarhvolsmáli. Við höfum heyrt hátt í þeim sem gagnrýna forsetann, af hverju lætur hann ekki bara undan og birtir þessa skýrslu/greinargerð?
Í lok þáttar mætir Hilmar Þór Hilmarsson prófessor á Akureyri sem oft er til viðtals um alþjóðamál. Nú í kjölfar nýrrar bókar þar sem m.a. er farið yfir hlutskipti smærri ríkja í heimi sem virðist breytast hratt þessi árin. Skipta átök stórveldanna, opinber og dulin, einhverju máli fyrir smærri ríki og íbúa þeirra.