Innlent

Vaktin: Ragnar Þór endurkjörinn formaður

Bjarki Sigurðsson og Atli Ísleifsson skrifa
Ragnar Þór Ingólfsson var í dag endurkjörinn formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson var í dag endurkjörinn formaður VR. Vísir/Vilhelm

Ragnar Þór Ingólfsson var í dag endurkjörinn formaður VR og ný stjörn kjörin. Úrslitin voru kynnt frambjóðendum um klukkan 13:30 í dag. Ragnar Þór hlaut 57 prósent atkvæða gegn 39,4 prósentum Elvu. Kosningaþátttaka var rétt rúmlega 30 prósent og hefur aldrei verið meiri í sögu félagsins.

Atkvæðagreiðslu lauk klukkan 12 en hún hafði verið í gangi síðan miðvikudaginn 8. mars, fyrir viku síðan. Kosningabaráttan milli Elvu og Ragnars hefur verið hörð og hafa ásakanir gengið á víxl um óheiðarleika og fleira

Þetta er í þriðja sinn Ragnar ber sigur úr býtum í formannskjöri hjá VR en hann sigraði einnig árið 2017 og 2021. Árið 2019 var hann sjálfkjörinn.

Greidd atkvæði voru 11.996 talsins en á kjörskrá voru 39.206 félagar. Kosningaþátttaka var því 30,6 prósent. Ragnar Þór hlaut 6.842 atkvæði gegn 4.732 atkvæðum Elvu. 

Samhliða formannskosningunni fór fram stjórnarkjör í félaginu þar sem kjörnir voru sjö stjórnarmenn til tveggja ára samkvæmt fléttulista og þrír varamenn til eins árs. 

Eftirfarandi voru kjörin í stjórn VR til tveggja ára: 

  • Halla Gunnarsdóttir
  • Sigurður Sigfússon
  • Svanhildur Ólöf Þórsteinsdóttir
  • Ólafur Reimar Gunnarsson
  • Jennifer Schröder
  • Þórir Hilmarsson
  • Vala Ólöf Kristinsdóttir

Ævar Þór Magnússon, Kristjana Þorbjörg Jónsdóttir og Gabríel Benjamin voru svo kosin varamenn í stjórn til eins árs. 

Halla Gunnarsdóttir, Ólafur Reimar Gunnarsson, Jennifer Schröder og Vala Ólöf Kristjánsdóttir koma öll ný inn í stjórn. Alls voru sextán manns sem buðu sig fram til stjórnar í VR.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira
×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.