Innlent

Óviss um hvort hann sé enn starfsmaður Twitter

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Haraldur Þorleifsson segir að lífið sé of stutt fyrir neikvæðni.
Haraldur Þorleifsson segir að lífið sé of stutt fyrir neikvæðni. Vísir/Vilhelm

Haraldur Þorleifsson, stofn­andi Ueno, segist óviss um hvort hann sé enn starfsmaður Twitter.

Töluvert hefur verið fjallað um mál Haraldar sem bauð Elon Musk, eiganda Twitter og ríkasta manni heims, birginn í vikunni vegna starfsloka hans, sem ekki varð af.

„Þetta hafði voða lítil áhrif á mig,“ segir Haraldur sem var til viðtals í Silfrinu á RÚV. „Það er þægilegt með svona mál að maður getur bara slökkt á símanum og farið að leika með krökkunum,“ segir Haraldur einnig.

Hann kveðst óviss um hvernig málum hans hjá samfélagsmiðlinum Twitter muni ljúka. „Það þarf að ljúka þessu einhvern veginn og ég þarf bara að finna út úr því hvað ég vil gera,“ segir hann en hann hefur ekki miklar áhyggjur af starfslokunum að öðru leyti.

„Hann er áhugaverður,“ segir Haraldur um Elon Musk. Auðjöfurinn bað Harald afsökunar í síðustu vikur eftir miklar og áberandi deilur þeirra á Twitter um starfslok Haraldar. Þær deilur hófust eftir að Haraldur leitaði svara hjá Musk um hvort honum hafi í raun og veru verið sagt upp.

Haraldur var spurður út í þau ýmsu samfélagslegu verkefni sem hann hefur unnið að síðustu ár.

„Ef ég er góður í einhverju, þá er það að fá aðra til að gera hlutina fyrir mig. Þannig ég tek þátt í alls konar verkefnum en yfirleitt eru það annað fólk sem gerir alla vinnuna. Þannig ég slepp yfirleitt frekar vel frá þessu.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×