Innlent

Listrænir 18 ára tvíburar í Þorlákshöfn með sýningu

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Tvíburarnir, Birgitta Björt og Daníel Rúnarsbörn, sem eru þessa dagana með samsýningu á bæjarbókasafninu í Þorlákshöfn.
Tvíburarnir, Birgitta Björt og Daníel Rúnarsbörn, sem eru þessa dagana með samsýningu á bæjarbókasafninu í Þorlákshöfn. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Átján ára tvíburar í Þorlákshöfn hafa opnað samsýningu í bæjarfélaginu þar sem þau sýna ólík verk sín. Kennarinn þeirra segir þau ótrúlega hæfileikarík, enda séu þau bæði færir málarar og flinkir teiknarar.

Það er í bæjarbókasafninu í Þorlákshöfn í rými, sem heitir „Undir stiganum“ þar sem tvíburarnir eru með sýninguna sína.

Hér erum við að tala um tvíburana Birgittu Björt og Daníel Rúnarsbörn, sem opnuðu sýninguna á fimmtudaginn og verður hún opin út marsmánuð á opnunartíma bæjarbókasafnsins í Þorlákshöfn. Bæði munum þau útskrifast af listalínu Fjölbrautaskóla Suðurlands í vor og stefna bæði á frekara nám í myndlist eða hönnun.

„Við eigum myndir hérna, sem voru bæði gerðar heima og í skólanum,” segir Birgitta og Daníel bætir við. „Þetta er bara allskonar eftir okkur, sumt úr skólanum og svo persónuverk aðallega frá mér en verkin hennar Birgittu eru meira náttúruverk.”

Gestir við opnun sýningarinnar voru dolfallnir yfir verkum systkinanna og sumir komu með bein harða peninga á staðinn og tryggðu sér verk með greiðslu, eins og þessa eplamynd, sem fór á 15.000 krónur.

Hvert stefnið þið svo í framtíðinni þegar þið eruð orðin fullorðin?

„Bara að geta lifað af list held ég, það er draumurinn. Það er gott markmið,” segja þau bæði.

Um sölusýningu er að ræða en tvíburarnir eru að safna fyrir útskriftarferð í vor.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Kennari tvíburanna, Ágústa Ragnarsdóttir í Fjölbrautaskóla Suðurlands, sem á einnig heima í Þorlákshöfn segir systkinin ótrúlega hæfileikarík.

„Þau eru nú eiginlega komin yfir það að vera efnileg af því að þau eru alltaf að græja og gera og eru bara ótrúlega hæfileikarík eins og þessi sýning ber með sér. Þau eru orðnir ansi færir málarar og svo eru þau líka mjög flinkir teiknarar. Ef að þau leggja áfram kraftinn í þetta og vinnusemina og eljuna þá hafa þau alla burði til að fá draum sinn uppfylltan að gera þetta að ævistarfi sínu,” segir Ágústa.

Tvíburarnir, Birgitta Björt og Daníel Rúnarsbörn, sem eru þessa dagana með samsýningu á bæjarbókasafninu í Þorlákshöfn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×