Innlent

Handtekinn fyrir líkamsárás og reyndist eftirlýstur

Árni Sæberg skrifar
Töluverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt.
Töluverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nægu að snúast í gærkvöldi og í nótt. Tilkynnt var um þrjár líkamsárásir og nokkuð af innbrotum. Einn gerandi líkamsárásar reyndist eftirlýstur.

Í dagbók lögreglu segir að lögregluþjónar hafi sinnt útkalli vegna líkamsárásar í miðbæ Reykjavíkur. Málið hafi verið leyst með því að ræða við hlutaðeigandi.

Annars staðar í borginni hafi maður verið handtekinn vegna tilkynningar um líkamsárás. Sá hafi fundist skammt frá vettvangi í annarlegu ástandi og verið látinn gista fangaklefa.

Þá segir að í umdæmi lögreglustöðvar 3, sem heldur uppi lögum og reglu í Kópavogi og Breiðholti, hafi verið tilkynnt um líkamsárás. Þegar lögregla kom á vettvang til að handtaka meintan geranda hafi komið í ljós að hann var eftirlýstur.

Undir aldri á ofsahraða

Þá segir í dagbókinni að í umdæmi stöðvar 2, sem þjónustar Garðabæ og Hafnarfjörð, hafi verið tilkynnt um innbrot í fyrirtæki. Þar höfðu innbrotsþjófar komist á brott með verðmæti.

Þá hafi verið tilkynnt um yfirstaðið innbrot í fyrirtæki í hverfi 110.

Önnur verkefni lögreglunnar snerust aðallega að umferðinni í gærkvöldi og í nótt. Í umdæmi stöðvar 3 var ökumaður stöðvaður eftir að hafa mælst á 160 kílómetra hraða á klukkustund. Sá reyndist vera undir lögaldri og því var haft samband við foreldra hans.

Annar ungur ökuþór var á ferð í umdæmi stöðvar 4. Sá mældist á 120 kílómetra hraða. Það mál var einnig leyst með því að hafa samband við foreldra ökumanns.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×