Innlent

Ragn­heiður Jóna tekur við sveitar­stjóra­stöðunni

Atli Ísleifsson skrifar
Knútur Emil Jónasson varaoddviti og Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir.
Knútur Emil Jónasson varaoddviti og Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir. Þingeyjarsveit

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar hefur samið við Ragnheiði Jónu Ingimarsdóttur, fyrrverandi sveitarstjóra Húnaþings vestra, um að taka að sér starf sveitarstjóra Þingeyjarsveitar út kjörtímabilið. 

Jón Hrói Finnsson var ráðinn sveitarstjóri síðasta sumar en sagði upp störfum fyrr á árinu. Oddvitinn Gerður Sigtryggsdóttir tók þá tímabundið við verkefnum sveitarstjóra.

Í tilkynningu á vef Þingeyjarsveitar segir að Ragnheiður Jóna hafi starfað sem sveitarstjóri Húnaþings vestra frá 2019 til 2022. Áður hafi hún starfað sem framkvæmdastjóri afmælisnefndar aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands.

„Ragnheiður Jóna starfaði í 10 ár hjá Eyþingi, sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, sem menningarfulltrúi og verkefnastjóri uppbyggingarsjóðs.

Ragnheiður Jóna lauk MA-prófi í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst og BA-prófi í nútímafræði frá Háskólanum á Akureyri. Auk þess hefur hún stundað nám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands og lokið námslínunni Forysta til framþróunar - leið stjórnenda til aukins árangurs, við Endurmenntun Háskóla Íslands.

Ragnheiði Jónu hlakkar til að takast á við krefjandi verkefni í nýju sveitarfélagi. „Kynnast íbúum og vinna með þeim að uppbyggingu nýs sveitarfélags sem hefur fjölmörg tækifæri til vaxtar.“

Ráðning Ragnheiðar Jónu verður staðfest á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar 23. febrúar nk. og hefur hún störf 1. mars,“ segir í tilkynningunni. 


Tengdar fréttir

Odd­viti tekur við verk­efnum sveitar­stjórans eftir upp­sögn

Gerði Sigtryggsdóttur, oddvita sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar, hefur verið falið að taka tímabundið við starfi sveitarstjóra þar til nýr hefur verið ráðinn í starfið. Jón Hrói Finnsson, sem tók við starfi sveitarstjóra síðasta sumar, lagði á dögunum fyrir sveitarstjórn uppsagnarbréf sitt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×