Innlent

Ísland á „grafalvarlegum stað“ eftir tvær vikur af verkföllum

Samúel Karl Ólason skrifar
Þórður Guðjónsson, framkvæmdastjóri Skeljungs.
Þórður Guðjónsson, framkvæmdastjóri Skeljungs. Vísir/Ívar

Þórður Guðjónsson, framkvæmdastjóri Skeljungs, segir það gríðarleg vonbrigði að verkfall hefjist aftur í nótt. Á föstudaginn og laugardag hefði tónninn í deiluaðilum verið jákvæður og hann var vongóður um að deilan myndi leysast.

„Því hún þarf svo sannarlega að leysast. Þetta eru mikil vonbrigði að það sé aftur búið að sigla í strand,“ sagði Þórður í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Varðandi það að langt gæti verið í næstu viðræður sagði Þórður að skaðinn yrði gífurlegur.

„Við sáum þarna að við fengum einn og hálfan dag og strax urðu tíu prósent bensínstöðva tómar og farið að skapast ákveðið vandamál,“ sagði Þórður. „En fimm til sjö dagar, þá ertu kominn alveg að þolmörkum hvað við sem samfélag þolum. Eftir sjöunda daginn fer þetta að líta ansi svart út.“

Þórður sagði að ef ekki stæði til að ræða saman fyrr en eftir tvær vikur í fyrsta lagi, væri Ísland komið á grafalvarlegan stað.

Varðandi undanþágur og hvernig undanþágur muni fara fram sagði Þórður að áhugavert hefði verið að fylgjast með því í síðustu viku. Enginn hafi verið að dreifa eldsneyti nema Skeljungur og Olíudreifing. Nú þyrfti að senda inn undanþágur og í kjölfar þess sé hægt að opna ákveðnar bensínstöðvar fyrir viðkomandi.

Þórður sagði að þetta myndi ekki byrja að gerast fyrr en eftir nokkra daga. Þá þyrfti að fá bílstjóra í verkfalli til að keyra undanþágurnar.

Viðtalið við Þórð má sjá í spilaranum hér að neðan. Rætt er við hann í lok fréttarinnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×