Erlent

Í­trekar að Úkraínu­menn munu ekki gefa eftir land fyrir frið

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Selenskí heimsótti Bretland á dögunum.
Selenskí heimsótti Bretland á dögunum. AP/Victoria Jones

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti segir útilokað að Úkraínumenn munu gefa eftir land til Rússa til að koma á friði. Að láta undan myndi aðeins gera það að verkum að Rússar kæmu aftur og vildu meira. Vopn frá Vesturlöndum færðu Úkraínu nær friði.

Ummælin lét forsetinn falla í viðtali við BBC í tilefni þess að nær ár er liðið frá því að Rússar hófu innrás sína í Úkraínu. Hann sagði vorsókn Rússa, sem hann hafði spáð fyrir um, þegar hafna en að Úkraínumenn myndu ná að halda aftur að þeim þar til þeir væru í aðstöðu til að hefja gagnsókn.

Selenskí ítrekaði hins vegar ósk sína um frekari hernaðaraðstoð frá bandamönnum sínum.

„Að sjálfsögðu hraða nútímavopn því að það komist á friður. Vopn eru eina tungumálið sem Rússland skilur,“ sagði forsetinn. 

Bandaríkjamenn, Bretar og Þjóðverjar hétu því á dögunum að senda skriðdreka til Úkraínu en enn eru vikur þar til þeir verða komnir á vígvöllinn. Þá hefur Rishi Sunak, forsætisráðherra Breta, ekki útilokað að sjá Úkraínumönnum fyrir þotum en þar er ekkert fast í hendi.

Selenskí tjáði sig einnig um hótun Alexander Lúkashenkó, forseta Belarús, um að taka þátt í stríðsátökunum ef einn einasti hermaður Úkraínu stigi fæti yfir landamærin.

„Ég vona að [Belarús] gerist ekki þátttakandi,“ sagði Selenskí. „Ef þeir gera það þá munum við berjast og við munum lifa það. Það væru risastór mistök að leyfa Rússum aftur að nota Belarús sem stökkpall fyrir árás.“

Selenskí sagði Úkraínumenn vera að berjast fyrir því að lifa af sem þjóð. Þeir hefðu valið að verða hluti af Evrópu. „Við völdum þessa leið. Við viljum fá öryggistryggingar. Hvers konar eftirgjöf varðandi landsvæði myndi veikja okkur sem ríki,“ segir hann.

Forsetinn sagði málið ekki snúast um málamiðlanir sem slíkar; menn gerðu málamiðlanir á hverjum degi. Spurningin væri gagnvart hverjum. „Gagnvart Pútín? Nei. Af því að það ríkir ekkert traust. Samtal við hann? Nei. Því það er ekkert traust.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×