Innlent

Há­hyrning rak á land á Reykja­nes­skaga

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Um er að ræða kvendýr sem er um sex metrar að lengd.
Um er að ræða kvendýr sem er um sex metrar að lengd. Sölvi R. Vignisson

Háhyrning rak á land á Reykjanesskaga á dögunum. Líffræðingur segir ekki sérstaklega algengt að slík dýr finnist í fjörum landsins. 

Um er að ræða um það bil sex metra langt kvendýr, sem hefur verið dautt í nokkra daga, að sögn Sölva R. Vignissonar, líffræðings hjá þekkingarsetri Suðurnesja. Hann fór og skoðaði dýrið og myndaði fyrr í dag.

„Ég fékk meldingu frá manni sem er staðkunnugur þarna. Þetta var í Ósabotnum, sem er norðan Hafna á Reykjanesi. Ég fór og tékkaði á þessu og lét Hafrannsóknarstofnun vita en hún vaktar hvalreka á Íslandi,“ segir Sölvi í samtali við fréttastofu.

„Það var engin sjáanleg dánarorsök en dýrið var búið að veltast eitthvað um í fjörunni og líklega rekið á land fyrir nokkrum dögum. En það var frekar ferskt.“

Sölvi segir háhyrninga af og til reka á land, en það sé ekki sérstaklega algengt. Síðasta tilvik sem hann muni eftir hafi verið 2019, þegar háhyrning rak á land við Þórshöfn. 

Sérfræðingar frá Hafrannsóknarstofnun fóru í dag og tóku sýni úr dýrinu til ýmiskonar rannsókna.

Víðförul dýr

Sölvi nefnir einnig verkefni sem rannsóknarsetur Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum stendur fyrir, þar sem fylgst er með ferðum einstakra dýra við Íslandsstrendur sem og annars staðar. 

„Það eru einstaklingar sem eru úr þessum íslenska stofni, aðallega dýr sem éta íslenska síld við strendur landsins. Þá eru bæði teymi þar og svo um borð í hvalaskoðunarskipum, sem taka myndir af bakugga og mynstri á baki dýranna til að geta greint einstaklingana og ferðir þeirra um heiminn,“ segir Sölvi og bætir við að vitað sé að háhyrningafjölskyldur sem hafi étið síld við strendur Íslands hafi einnig veitt seli við Skotlandsstrendur. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×