Innlent

Landasali fyrir norðan talinn hafa hagnast um margar milljónir

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Málið er til meðferðar hjá Hérðasdómi Norðurlands eystra á Akureyri.
Málið er til meðferðar hjá Hérðasdómi Norðurlands eystra á Akureyri. Jónas Páll

Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra hefur ákært tvo einstaklinga fyrir nokkuð umfangsmikla sölu á sígarettum og tóbaki. Annar einstaklinganna er einnig ákærður fyrir landasölu. Er viðkomandi talinn hafa hagnast um 5,6 milljónir vegna málsins.

Aðalmeðferð í máli einstaklinganna fer fram fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra í næsta mánuði. 

Í ákæru yfir þeim kemur fram að öðrum einstaklingnum, konu, er gefið að sök að hafa yfir tæplega tveggja ára tímabil, á Akureyri frá sumrinu 2018 til sumarsins 2020 selt ótilgreindum fjölda einstaklinga ótiltekið magn af heimatilbúnu áfengu, svokölluðum landa. Tekið er fram að 21 þeirra sem hún seldi landa hafi verið undir tuttugu ára aldri.

Þá er henni einnig gefið að sök að hafa haft á heimili sínu 33 lítra af landa, ætlað í söluskyni. Þá er henni einnig gefið að sök að hafa án heimildar selt ótiltekið magn af sígarettum og tóbaki á sama tímabili. Fram kemur í ákærunni að með þessari ólögmætu starfsemi hafi hún aflað sér ávinnings upp á 5,6 milljónir króna.

Þá er hún einnig sökuð um að hafa millifært tæpa eina milljón króna á hinn einstaklinginn, sem útvegaði henni tóbak sem konan seldi. Er konan sökuð um brot gegn lögum um peningaþvætti, brot gegn áfengislögum og brot gegn tóbaksvörnum.

Hinn einstaklingurinn, karlmaður, er ákærður fyrir að hafa frá sumrinu 2019 til sumarsins 2020, staðið saman með konunni að því að selja frá heimili hennar sígarettur og tóbaksvörur. Með þessu hafi hann hagnast um umrædda tæpu milljón, sem hann hafi nýtt til eigin framfærslu og reksturs.

Lögreglustjórinn gerir kröfu um að þau verði bæði dæmd til refsingar, auk þess sem að gerð er krafa um að gerðar verði upptækar rúmlega 150 þúsund krónur, sem lögregla lagði hald á í peningum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.