Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Ýmislegt var um að vera. Til að mynda var tilkynnt um meðvitundarskertan aðila fyrir utan skemmtistað í miðborg Reykjavíkur. Þar reyndist ölvun vera sökudólgurinn og manninum komið til síns heima. Þá var lögregla kölluð út eftir að maður fékk glerflösku í höfuðið á skemmtistað í miðborginni. Gerandinn hefur ekki komið í leitirnar en hinn slasaði var fluttur á slysadeild.
Skemmtistað í miðborginni var þá lokað vegna þess að þar var enginn dyravörður með réttindi. Lögregla þurfti einnig að brjóta upp samkvæmi á skemmtistað í 101 en þar var verið að bera fram áfengi fyrir gesti undir tvítugu.
Maður var handtekinn í Garðabæ grunaður um þjófnað í verslun. Hann var látinn laus að lokinni skýrslutöku. Þá var einn handtekinn í Breiðholti og vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn máls vegna líkamsárásar.