Innlent

Meiri­hlutinn segir Ís­lands­banka­málið á loka­metrunum

Jakob Bjarnar skrifar
Hildur Sverrisdóttir er í meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis sem felldi tillögu minnihlutans sem vildi kalla eftir lögfræðilegri úttekt á Íslandsbankasölunni. Hún segir þau í meirihlutanum „ekki hafa séð þörf á þannig úttekt nú undir blálok málsins eftir alla umfangsmikla umfjöllun nefndarinnar.“
Hildur Sverrisdóttir er í meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis sem felldi tillögu minnihlutans sem vildi kalla eftir lögfræðilegri úttekt á Íslandsbankasölunni. Hún segir þau í meirihlutanum „ekki hafa séð þörf á þannig úttekt nú undir blálok málsins eftir alla umfangsmikla umfjöllun nefndarinnar.“ site:visir.is

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, segir að tillaga minnihlutans í nefndinni, þess efnis að vert sé að kalla eftir lögfræðilegu áliti á Íslandsbankasölunni, hafi komið flatt uppá sig.

Málið hefur verið til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og hefur nokkur fjöldi sérfræðinga verið kallaður fyrir hana til að fara yfir málið.

Meðal þess sem vakið hefur athygli í því sambandi er yfirferð Tryggva Gunnarssonar fyrrverandi umboðsmanns Alþingis. Í talpunktum, áréttingar um það sem hann fór yfir á lokuðum nefndarfundinum, kemur eitt og annað fram sem bendir til þess að ýmsir þættir sem meðal annars snúa að hæfi og stjórnsýslu á umdeildri sölu ríkisins á fimmtungs hlut þess í Íslandsbanka, séu málum blandin.

Sáu enga þörf á úttekt undir blálok málsins

Minnihlutinn í nefndinni lagði í kjölfarið fram tillögu þess efnis að kallað væri eftir sérstakri lögfræðilegri úttekt en meirihlutinn felldi þá tillögu.

Vísir ræddi við Hildi, sem er sagði að meirihlutinn hafi að sjálfsögðu hlustað á það sem Tryggvi fór yfir á fundinum.

„Eins og alla þá sérfróðu gesti sem komið hafa fyrir nefndina síðan í nóvember.“

En af hverju fellduð þið tillögu minnihlutans?

„Það er annað mál að leggja út í nýja rannsókn málsins eins og tillagan bar með sér af hálfu aðila sem hefur ekki rannsóknarheimildir eins og Ríkisendurskoðun hefur og yrði slík skoðun því alltaf fræðilega abstract. Við í meirihlutanum sáum ekki þörf á þannig úttekt nú undir blálok málsins eftir alla umfangsmikla umfjöllun nefndarinnar.“

Segir ríkisendurskoðanda hafa skoðað stjórnsýslulega þætti

Hildur segist þó hafa skilning á þeim sjónarmiðum sem Tryggvi setti fram.

„Og sagði meðal annars við hann á fundi nefndarinnar að ég tek undir með honum að það hefði verið gagnlegra ef skýrsla ríkisendurskoðanda hefði verið um margt skýrari og þá sérstaklega hefði hún mátt bera skýrar með sér umfjöllun um þau atriði sem Ríkisendurskoðun þótti ekki gagnrýniverð.“

Fram kemur í talpunktum Tryggva að ákveðnir þættir hafi einfaldlega ekki verið skoðaðir af hálfu Ríkisendurskoðunar. Hildur segir það atriði málum blandið.

„Það sem flækir það er að sú skoðun skarast á við orð ríkisendurskoðanda sjálfs. Ríkisendurskoðandi var nefnilega skýr á opnum fundi nefndarinnar um að ákveðnir stjórnsýsluþættir hafi verið skoðaðir við rannsókn málsins en að sú skoðun hafi ekki gefið til kynna að nokkuð misjafnt hafi þar átt sér stað og þess vegna hafi þeim ekki verið gerð skil í skýrslunni.“

Hildur telur flokkshagsmuni ekki hafa spilað eina rullu í úrlausn málsins.vísir/vilhelm

Hildur segir þau í meirihlutanum ekki hafa haft engar forsendur til annars en að taka þau orð ríkisendurskoðanda trúanleg né töldu þau ástæðu til að rengja þau orð hans.

„Við í meirihlutanum sáum því ekki ástæðu til að fara út í einhverja svona vegferð þar sem alls ekkert hefur bent til nauðsyn þess af því sem hefur að öðru leyti komið fram í umfangsmikilli umfjöllun nefndarinnar.“

Segir málið á lokametrunum

Má þá líta svo á að þessu máli sé lokið af ykkar hálfu? Teljið þið svo vera?

„Fyrir mitt leyti tel ég að vinna nefndarinnar hafi verið ítarleg og tæmandi. Því hefur enda verið lýst yfir af formanni nefndarinnar að vinnsla málsins sé á lokametrunum og því kom þessi tillaga minnihlutans að einhverju leyti á óvart þar sem hún felur í sér að byrja á málinu upp á nýtt alla vinnu nefndarinnar.“

En svo aftur sé vísað í talpunkta Tryggva og spurningunni sem þar er sett fram spurning er varðar það hvort einhverju máli skipti að reglum sé fylgt: „Skiptir þetta kannski engu máli bara ef þetta hefur „reddast“ og niðurstaðan er t.d. fjárhagslega ásættanleg?“

„Ég er reyndar ósammála því að þetta hafi á einhvern hátt bara „reddast“. Þvert á móti get ég ekki betur séð eftir að hafa farið mjög vel yfir alla þessa rannsókn og öll mismunandi sjónarmið við hana að heilt yfir hafi þetta verið mjög vel heppnuð sala þó að einstaka atriði hefðu getað verið vandaðri. 

Hildur segir málið ekki eins dramatískt og kannski einhverjir voru að vona.vísir/vilhelm

Þá eru auðvitað vonbrigði ef rétt reynist að þeir fulltrúar Íslandsbanka sem voru fengnir til aðstoðar útboðsins hafi gerst brotlegir við lögin í landinu en það kemur úttekt þingsins á stjórnsýsluframkvæmd málsins í raun ekkert við. En nánari umfjöllun um afstöðu nefndarinnar verður að finna í nefndarálitum sem verða birt við lok málsins að öllum líkindum í næstu viku og því rétt að úttala sig ekki um það hér og nú.“

Segir málið ekki eins dramatískt og einhverjir voru að vona

Svo þessi lopi sé teygður eilítið: Er það kannski svo að flokkspólitískir hagsmunir yfirtrompi allt?

Hildur hlær við þessari yfirgripsmiklu spurningu:

„Nei, ég held að allir þeir sem hafa kynnt sér gögnin í málinu af einhverri alvöru og sanngirni sjái að það þurfi ekki flokkshagsmuni til að finnast ekki samhljómur á milli þess sem raunverulega gerðist í málinu og þess hvernig umræðan um það hefur verið. Ég tel augljóst öllum sem vilja sjá að málið er í öllu falli í engu samræmi við gífuryrðin sem voru látin falla í vor og svo aftur fyrsta sólarhringinn eftir að skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út,“ segir Hildur.

Og hún snýr upp á spurninguna: „Mér þykir nær að spyrja hvort það séu kannski aðrir flokkspólitískir hagsmunir sem valda því að erfitt er að horfast í augu við að þegar rykið settist reyndist málið ekki vera eins dramatískt eins og einhverjir voru að vona og því sé kannski verið að reyna þyrla upp rykinu á ný í þeim tilgangi að drepa þeirri staðreynd á dreif.“


Tengdar fréttir

Fjár­mál­a­ráð­herr­a hafð­i ekki „nokkr­a á­stæð­u“ til að í­hug­a hæfi sitt

Ríkisendurskoðandi sagði að hann hafi ekki komið auga á atvik þar sem fjármálaráðherra hafi haft „nokkra ástæðu“ til að velta fyrir sér hæfi sínu við sölu á Íslandsbanka. Fjármálaráðherra hafi ekki fengið slíkar upplýsingar á borð til sín. Hefði Ríkisendurskoðun orðið þess áskynja í framkvæmdinni hefði verið vakin athygli á því í skýrslu um söluna. „Það skýrir hvers vegna við fórum ekki dýpra ofan í þá sálma [í skýrslunni],“ sagði ríkisendurskoðandi.

Bankasýslan sakar ríkisendurskoðanda um rangfærslur

Fulltrúar Bankasýslu ríkisins halda því fram að ríkisendurskoðandi hafi farið með rangt mál á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í dag þegar hann sagði Bankasýsluna hafa skort yfirsýn þegar ákvörðun um leiðbeinandi verð hafi verið tekin.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.