Innlent

Sanna nýtur mestra vin­sælda borgar­full­trúa

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sanna Magdalena var oftast nefnd á nafn þegar spurt var hvaða borgarfulltrúi hefði staðið sig best á kjörtímabilinu sem hófst eftir kosningarnar í maí.
Sanna Magdalena var oftast nefnd á nafn þegar spurt var hvaða borgarfulltrúi hefði staðið sig best á kjörtímabilinu sem hófst eftir kosningarnar í maí. Vísir/Vilhelm

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, er sá borgarfulltrúi sem Reykvíkingum finnst hafa staðið sig best á yfirstandandi kjörtímabili. Helstu breytingar á fylgi flokka frá því í kosningunum í fyrravor eru hjá Framsókn og Pírötum. Framsókn fer úr 18,7 prósentum niður í 8,2 prósent. Pírata fara úr 11,6 prósentum upp í 20,4 prósent.

Þetta kemur fram í könnun Maskínu sem framkvæmd var um mánaðamótin nóvember desember 2022 og náði til rúmlega sjö hundruð íbúa borgarinnar átján ára og eldri.

Alls nefndu 63 svarenda eða 15,5 prósent Sönnu sem þann fulltrúa sem hefði staðið sig best. Næstur kemur Dagur B. Eggertsson borgarstjóri með 53 atkvæði og þar á eftir Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, með 49 atkvæði. Alexandra Briem Pírati fær 42 atkvæði og Einar Þorsteinsson úr Framsókn 35 atkvæði.

Dóra Björt Guðjónsdóttir Pírati fær 28 atkvæði, Kjartan Magnússon úr Sjálfstæðisflokki 22 atkvæði og Heiða Björg Hilmisdóttir úr Samfylkingunni einu atkvæði minna. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir er fékk 15 atkvæði.

Það kann ekki að koma á óvart að tekjulægra fólk greiddi Sönnu frekar atkvæði sitt á sama tíma og Hildur nýtur mest fylgis meðal þeirra tekjuhærri.

Þá kemur sömuleiðis fram í könnuninni að tæplega helmingur borgarbúa telur borgarstjórn Reykjavíkur standa sig fremur eða mjög ill. Um fimmtungur telur borgarstjórn standa sig mjög eða fremur vel en 32 prósent telja frammistöðuna í meðallagi.

Þá var spurt hvaða flokk fólk myndi kjósa ef gengið yrði til kosninga í dag. Vikmörk eru töluverð í kosningunni. Samfylkingin fékk 23,4 prósent, Sjálfstæðisflokkurinn 22,3 prósent og Píratar 20,4 prósent. Skörun vikmarka er þó nokkur á milli þriggja efstu flokka og því ekki marktækur munur með tilliti til þessarar einu könnunar.

Í samhengi við vinsældir Sönnu Magdalenu í könnuninni eru Sósíalistar fjórði stærsti flokkurinn með 9,6 prósent, Framsókn með 8,2 prósent og Viðreisn 6,8 prósent. Flokkur fólksins fær 3,8 prósent, VG 3,3 prósent og Miðflokkurinn 2,2 prósent. 

Allar upplýsingar um könnunina má sjá í skjalinu að neðan (PDF).

Tengd skjölAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.