Lífið

Skýrari mynd komin af slysinu og Renner þakkar að­dá­endum sínum

Atli Ísleifsson skrifar
Jeremy Renner er með áverka á andliti, en hann hefur nú deilt mynd sjálfum sér á sjúkrabeðinu í Reno.
Jeremy Renner er með áverka á andliti, en hann hefur nú deilt mynd sjálfum sér á sjúkrabeðinu í Reno. Instagram

Bandaríski leikarinn Jeremy Renner hefur sent aðdáendum sínum kveðju af sjúkrabeðinu í Reno í Nevada þar sem hann þakkar þeim sérstaklega fyrir stuðninginn eftir að hann slasaðist alvarlega þegar að hann varð fyrir snjóbíl.

Renner deildi mynd af sjálfum sér þar sem sjá má áverka á andliti. „Takk öll fyrir ykkar fallegu orð. Ég er í of slæmu ástandi núna til að skrifa. En ég sendi ást til ykkar allra,“ segir Renner.

Hinn 51 árs Renner var fluttur með þyrlu frá heimili sínu við Tahoe-vatn á sunnudaginn eftir slysið. Hann var með mikla áverka á bringu og fótlegg. Snjóbíll Renners, sem vegur um 6.500 kíló, hafði þá ekið yfir hann og bárust fréttir um að ástand hans væri alvarlegt en stöðugt. Hann hefur gengist undir aðgerð.

Í frétt BBC kemur fram að Renner hafi verið að ryðja snjó á snjóbílnum sínum við heimilið eftir að að um meters nýfallinn snjór var á jörðinni.

Lögreglumaðurinn Darin Balaam í Washoe-sýslu segir að einn í fjölskyldu Renners hafi fest bíl sinn nærri heimilinu og hafi Renner tekist að losa bílinn með aðstoð snjóbílsins. Hann hafi svo farið úr snjóbílnum sem fór svo að hreyfast þegar hann var mannlaus. Renner hafi þá reynt að komast inn í snjóbílinn þegar hann var á ferð, en orðið undir bílnum.

Snjóbíllinn er af gerðinni PistenBully og vegur rúmlega sex tonn.

Balaam sagði Renner vera „frábæran nágranna“ og hafi alltaf notað snjóbíl sinn til að ryðja vegi í nágrenninu, en heimili leikarans er staðsett nærri skíðafjallinu Rose-fjalli í Tahoe sem er í um hálftíma akstursfjarlægð frá Reno í Nevada.

Hinn 51 árs gamli Renner hefur verið tilnefndur til Óskarsverðlauna í tvígang; fyrir hlutverk sín í myndunum Hurt Locker og The Town. Þá er hann einnig þekktur fyrir að hafa farið með hlutverk ofurhetjunnar Clint Barton, einnig þekktur sem Hawkeye, í Marvel-myndunum Avengers. Þá fór hann með hlutverk Aaron Cross í myndinni The Bourne Legacy frá árin 2012.


Tengdar fréttir

Jeremy Renner á gjör­gæslu eftir að­gerð

Bandaríski leikarinn Jeremy Renner er á gjörgæslu og er ástand hans enn sagt alvarlegt en stöðugt eftir að hann gekkst undir aðgerð í gær. Renner slasaðast alvarlega eftir að hann varð undir snjóbíl þegar hann vann að því að ryðja heimkeyrsluna fyrir utan heimili sitt í Nevada.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×