Lífið

Tón­listar­­menn opna sig í nýrri þátta­röð: „Menn voru „stone­d“ í mörg ár á hverjum einasta degi“

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Tónlistarmaðurinn Björgvin Halldórsson er einn af viðmælendum Audda í Tónlistarmönnunum okkar.
Tónlistarmaðurinn Björgvin Halldórsson er einn af viðmælendum Audda í Tónlistarmönnunum okkar. Vísir/Vilhelm

Árið 2023 byrjar með trompi á Stöð 2 en ný þáttaröð af Tónlistarmönnunum okkar fer í loftið nú í janúar. Auðunn Blöndal, umsjónarmaður þáttanna segir að von sé á sannkallaðri veislu þar sem áhorfendur fá að kynnast fremsta tónlistarfólki landsins á persónulegum nótum.

Tvö ár eru síðan fyrsta þáttaröð af Tónlistarmönnunum okkar var sýnd á Stöð 2. Sú þáttaröð naut mikilla vinsælda og því var ákveðið að endurtaka leikinn, enda nóg af frábæru tónlistarfólki hér á landi.

Viðmælendur í nýju þáttaröðinni eru þau Nanna Bryndís Hilmarsdóttir, Björgvin Halldórsson, Mugison, Sigga Beinteins, Andrea Gylfadóttir og Valdimar Guðmundsson.

„Við byrjuðum að taka þessa þáttaröð upp jólin 2021, þá fórum við á Jólagesti Björgvins. Það voru fyrstu tökurnar. Síðasti tökudagur var svo bara núna um daginn þegar við fórum aftur á Jólagesti. Við byrjuðum á Björgvin og enduðum á Björgvin,“ segir Auddi í samtali við Vísi.

Auðunn Blöndal er umsjónarmaður þáttanna.Vísir/Vilhelm

Nanna Bryndís kom mest á óvart

Tökur stóðu því yfir í heilt ár og hitti Auddi viðmælendur sína reglulega yfir tímabilið sem Auddi telur að skapi dýpri tengingu við viðmælendur.

„Ég held það sé mjög mikill munur á því þegar fólk mætir einu sinni í eitt viðtal og að vera að hitta viðmælendur svona oft yfir langt tímabil eins og við erum að gera. Það er mjög lítið teymi í kringum þættina, þannig það myndast bara mjög þægileg og persónuleg stemning, frekar en að þetta sé hefðbundið viðtal.“

Nanna Bryndís, söngkona hljómsveitarinnar Of Monsters And Men er fyrsti viðmælandi þáttaraðarinnar. Auddi segir að Nanna sé jafnframt sá viðmælandi sem hafi komið hvað mest á óvart.

„Fólk veit ekkert mikið um hana Nönnu. Þeir sem hafa séð þann þátt uppi í vinnu, þeim fannst alveg geggjað að fá að kynnast henni.“

Önnur þáttaröð af Tónlistarmönnunum okkar fer í loftið 15. janúar.stöð 2

Björgvin Halldórsson opnar sig

Þó svo að flestir tónlistarmennirnir í þáttunum hafi farið í fjölmörg viðtöl í gegnum tíðina telur Auddi að áhorfendur fái að kynnast þeim í nýju ljósi.

„Við reynum að spyrja fólk út í hitt og þetta. Bjöggi opnar sig vel þarna í sínum þætti.“ En í stiklu fyrir þættina má heyra Björgvin rifja upp gamlar og góðar bransasögur.

„Og svo fóru efnin að koma - hassið,“ segir Björgvin í stiklunni. Auddi spyr hann þá hvort hann hafi verið að fá sér. „Já menn voru „stoned“ í mörg ár á hverjum einasta degi,“ svarar Björgvin.

Tónlistarmennirnir okkar verða á dagskrá á Stöð 2 á sunnudögum í vetur. Fyrsti þáttur verður sýndur 15. janúar og segir Auddi að áhorfendur eigi von á sannkallaðri veislu.

Klippa: Tónlistarmennirnir okkar - stikla

Tengdar fréttir

„Hann er raunverulegur snillingur, trúðu mér“

Síðasti gesturinn í þáttunum Tónlistarmennirnir okkar var sýndur í gærkvöldi á Stöð 2. Þar ræddi Auðunn Blöndal við Daníel Ágúst Haraldsson um feril hans í músíkinni en hann hefur bæði verið í Ný Dönsk í yfir 30 ár og lengi einnig komið fram með sveitinni GusGus.

„Það bara hrundi allt“

„Ég var komin með alveg rosalega fínan plötusamning með Jack Magic Orchestra hjá EMI og við spiluðum mikið út um allt í Bretlandi og Þýskalandi og algjör draumur í dós. Ég hefði getað hent mér fyrir björg fyrir þá músík,“ segir tónlistarkonan Ragnhildur Gísladóttir sem var gestur Auðuns Blöndal í þættinum Tónlistarmennirnir okkar á Stöð 2 í gærkvöldi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×