Innlent

Óska eftir að ræða við sund­laugar­gesti sem urði vitni að bana­slysi

Kjartan Kjartansson skrifar
Úr Breiðholtslaug.
Úr Breiðholtslaug. ÍTR

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill ná tali af sundlaugargestum sem voru á vettvangi þegar karlmaður á áttræðisaldri missti meðvitund í Breiðholtslaug og lést í kjölfarið í síðasta mánuði. Andlát mannsins er til rannsóknar hjá lögreglunni.

RÚV greindi frá því fyrir helgi að talið sé að maðurinn, sem var hreyfihamlaður, hafi legið hreyfingarlaus á botni heits potts í um þrjár mínútur áður en sundlaugargestur kom að honum. Lögreglan hefði upptökur úr eftirlitsmyndavélum sundlaugarinnar til skoðunar en þær sýni aðdragandann.

Í tilkynningu sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér í dag óskar hún eftir að ná tali af sundlaugargestum sem voru á vettvangi þegar slysið átti sér stað um miðjan dag 10. desember. Þeir eru beðnir um að hafa samband í síma 444-1000 eða í gegnum tölvupóstfangið r2a@lrh.is.

Tilkynning um málið barst lögreglu klukkan 15:13 laugardaginn 10. desember. Þegar hún mætti á staðinn voru endurlífgunartilraunir hafnar. Maðurinn var fluttur á Landspítalann en var úrskurðaður látinn síðar sama dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×