Lífið

Gefur enn barnaspítala Manchester jólagjafir

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Ariana Grande sést hér á góðgerðartónleikunum, One Love, sem hún stóð fyrir eftir árásina við Manchester Arena.
Ariana Grande sést hér á góðgerðartónleikunum, One Love, sem hún stóð fyrir eftir árásina við Manchester Arena. Vísir/Getty

Stórsöngkonan Ariana Grande gefur barnaspítala í Manchester gjafir á ári hverju. Fimm ár eru liðin frá því að hryðjuverkaáras var gerð í Manchester-höllinni þar sem Ariana tróð upp. 

Árásin átti sér stað í maí 2017, á tónleikum söngkonunnar í Manchester og varð 22 að bana. Börn voru á meðal þeirra sem létust en um er að ræða mannskæðustu hryðjuverkaárás í Bretlandi frá sprengjuárásunum í London árið 2005 þar sem 56 manns létust.

Á jóladag birti góðgerðarstarf barnaspítalans mynd af gjöfunum þar sem Ariönu er þakkað fyrir. 

„Það var mikill spenningur þegar við tókum við jólagjöfunum til handa börnum á spítalanum frá Ariönu Grande,“ segir í myndbirtingu góðgerðarstarfsins á Twitter.

„Við vitum að Manchester, og sér í lagi konunglegi barnaspítalinn í Manchester, á sérstakan stað í hjarta Ariönu.“

Á síðustu fimm árum hefur Ariana haldið góðu sambandi við Machester-borg. Hún var gerð að heiðursborgara í Manchester árið 2017 eftir að hafa haldið styrktartónleika þar aðeins nokkrum vikum eftir hryðjuverkaárásina. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×