Innlent

Met slegið í komu flóttafólks í desember

Jakob Bjarnar skrifar
Gylfi Þór segir að þessi mikli fjöldi flóttafólks sem komið hefur til landsins nú í desembermánuði hafi komið viðbragðsaðilum í opna skjöldu.
Gylfi Þór segir að þessi mikli fjöldi flóttafólks sem komið hefur til landsins nú í desembermánuði hafi komið viðbragðsaðilum í opna skjöldu. vísir/vilhelm

Flóttafólkið sem nú streymir til landsins sem aldrei fyrr kemur einkum frá frá Venesúela og Úkraínu.

Gylfi Þór Þorsteinsson, sem hefur það mikla verkefni með höndum að skipuleggja móttöku flóttafólks sem til landsins kemur, segir að nú sé verið að slá met í komu flóttafólks í desember. Flóttamenn eru komnir yfir fimm hundruð manns og enn er mánuðurinn ekki liðinn.

„Ég held að það hafi aldrei komið jafn margir í desember áður, orðinn næst stærsti mánuður ársins í komu flóttafólks, og enn þrír dagar eftir. Það sem er merkilegt við þetta er að reynsla undanfarinna ára og áratuga er sú að þegar nær dregur áramótum dregur jafnan mjög úr komu flóttafólks til landsins. Þetta er einkum vegna þess að þá hækkandi flugfara á þeim tíma árs. En nú bregður svo við að, kannski vegna þess að neyðin er slík í þeim löndum sem hingað leita, að fólk leggur allt í sölurnar að komast úr landi.“

Gylfi Þór flettir í bókum sínum og segir að tvö lönd skeri sig úr, þá hvaðan flóttafólkið komi. „Þetta eru Venesúela og Úkraína, aðallega. Sýrland er í þriðja sæti, en það eru að koma mun færri þaðan.“

Þessi óvenjulega aukning í desember kemur viðbragðsteyminu í opna skjöldu.

„Við höfum þurft að bregðast hratt við og finna til skammtímahúsnæði fyrir þennan hóp. Fjöldahjálparstöð sem við rekum í samvinnu við Rauða krossinn fylltist, þannig að við þurftum að bregða á það ráð að forfæra fólk og bregða á önnur ráð, þétta raðirnar.“

Gylfi Þór segir að jafnframt hafi verið brugðið á það ráð að taka í notkun húsnæði sem ekki stóð til að taka í gagnið fyrr en einhvern tíma á nýju ári, verði opnað. „Við neyðumst til að nýta það strax.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×