Pistill Clarksons vakti mikla reiði í Bretlandi enda sagðist hann ekki geta beðið eftir því að Markle yrði leidd nakin um götur bæja Bretlands á meðan fólk jysi yfir hana skömmum. Ríflega tuttugu þúsund manns hafa sent fjölmiðlanefnd Bretlands kvörtun vegna pistilsins.
Clarkson baðst afsökunar á orðum sínum síðasta mánudag og í gær gaf the Sun út formlega afsökunarbeiðni.
Talsmaður hertogahjónanna af Sussex segir að ekki hafi verið haft samband við þau persónulega. „Sú staðreynd að the Sun hafi ekki haft samband við hertogaynjuna sýnir ásetning þeirra. Þetta er ekkert annað en markaðsbrella. Þrátt fyrir að almenningur eigi afsökunina fyllilega skilið, þá værum við ekki í þessari stöðu ef the Sun héldi ekki áfram að græða á hatri, ofbeldi og kvenhatri. Sönn afsökunarbeiðni væri stefnubreyting í umfjöllun þeirra,“ segir í yfirlýsingu.