Lífið

Ljótasta ný­bygging landsins er á Hall­gerðar­götu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hallgerðargata 13 var valin ljótasta nýbygging ársins.
Hallgerðargata 13 var valin ljótasta nýbygging ársins. Arkitektúruppreisnin

Húsið við Hallgerðargötu 13 hefur verið valið ljótasta nýbygging ársins 2022. Samtökin Arktektúruppreisnin stóðu fyrir kosningunni. Í sömu kosningu var Móberg á Selfossi valið fallegasta nýbygging ársins. 

Arkitektúruppreisnin er alþjóðleg hreyfing sem á rætur sínar að rekja til Svíþjóðar. Árið 2016 héldu samtökin þar í landi fyrst kosningar um fallegustu og ljótustu nýbyggingu landsins og skömmu síðar hófu Danir, Finnar og Norðmenn að vera með svipaðar kosningar. 

Þrjú þúsund manns tóku þátt

Þórhallur Bjarni Björnsson, meðlimur Arkitektúruppreisnarinnar á Íslandi, segir að kosningin hafi verið haldin hér á landi í annað skiptið í ár. Um þrjú þúsund manns tóku þátt í kosningu um hvaða hús ættu að hljóta annars vegar Heiðursverðlaun Arkitektúruppreisnarinnar sem fara til fallegustu nýbyggingarinnar og hins vegar Skelfingar medalíuna sem fer til ljótustu nýbyggingarinnar. 

„Þetta gekk mjög vel. Þetta er alltaf að stækka. Þetta er annað árið sem við blásum til kosninga. Fyrsta árið var meira tilraunakosning,“ segir Þórhallur Bjarni í samtali við fréttastofu. 

Fallegasta nýbyggingin í ár er Móberg á Selfossi. Þar er starfrækt hjúkrunarheimili og hlaut byggingin 54,2 prósent atkvæða í kosningunum. Í öðru sæti var Hverfisgata 88 með sextán prósent atkvæða og í þriðja sæti var Hotel Reykjavík Saga með 11,3 prósent atkvæða en báðar byggingar eru í Reykjavík. 

Móberg á Selfossi var valin fallegasta nýbygging ársins.Arkitektúruppreisnin

Ljótasta nýbyggingin í ár, og þar með handhafi Skelfingar medalíunnar, er Hallgerðargata 13 í Reykjavík. Í öðru sæti var Hringhamar 7 í Hafnarfirði og í þriðja sæti Álalækur 1-3 á Selfossi. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×