Innlent

Óveðursverkefnum formlega lokið

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Frá aðgerðum Björgunarsveita í gærkvöldi. 
Frá aðgerðum Björgunarsveita í gærkvöldi.  Landsbjörg

Óveðursverkefnum Björgunarsveita er formlega lokið. Eftir því sem leið á daginn fækkaði verkefnum og nú er hiti um frostmark á höfuðborgarsvæði sem minnkar skafrenning.

„Þessu er blessunarlega lokið,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar í samtali við fréttastofu.

„Það dró úr verkefnum eftir því sem leið á daginn og svo hefur hlýnað svolítið þannig það skefur ekki strax í það sem er mokað. Þá verður þetta viðráðanlegt,“ segir Jón Þór og bætir við að allar sveitir séu komnar í hús núna. Vel gekk í dag að sinna verkefnum.

„Það er greinilegt að fólk var ekki mikið á ferðinni en það þurfti að aðstoða fólk sem þurfti á lyfjagjöf að halda eða komast á heilbrigðisstofnun. Einhver þurfti aðstoð við að moka sig út úr húsinu sínu þar sem var orðið matarlítið.“

Flest hafa verkefnin hjá Björgunarsveitum verið á Suðurnesjum. vísir/vilhelm

Yfir 600 manns frá um 50 Björgunarsveitir sinntu verkefnum. 

„Langflest verkefnin voru á Suðurlandi og Suðurnesjum en það voru stöku verkefni nánast um allt land,“ segir Jón Þór. Lokanir virðast hafa virkað þar sem færri útköll voru þar sem búið var að spá versta veðrinu og lokanir voru í gildi.  

„Verkefni voru meðal annars á Jökuldal, Bröttubrekku, Holtavörðuheiði, Þröskuldum og Snæfellsnesi. Stórt verkefni var seint í gærkvöldi í Kollafirði þegar hjálpa þurfti um 200 manns sem sátu föst í bílum. En eigum við ekki að segja að þessu sé bara formlega lokið í bili núna,“ segir Jón Þór að lokum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×