Innlent

„Þetta er ein af okkar stærri bilunum“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna.
Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna. Veitur

Öllum sundlaugum höfuðborgarsvæðisins verður lokað út daginn í dag vegna bilunar í Hellisheiðarvirkjun. Bilunin er ein sú umfangsmesta sem komið hefur upp, að sögn framkvæmdastýru Veitna. Íbúar þurfi þó ekki að hafa áhyggjur af upphitun heimila í kuldanum sem nú ríkir.

Engin framleiðsla er nú i Hellisheiðarvirkjun vegna bilunarinnar. Heildarframleiðslugeta á heitu vatni fyrir hitaveitu höfuðborgarsvæðisins er því skert um að minnsta kosti 20 prósent en teymi frá Orku náttúrunnar vinnur að viðgerð. Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra Veitna segir flókið verk fyrir höndum.

„Það eru náttúrulega mjög krefjandi aðstæður núna, það er allt ófært. En þeir voru með mannskap upp frá, veit ég sem gat strax byrjað. Og svo eru fleiri frá Orku náttúrunnar á leiðinni.“

Veitur hafa þegar gripið til ráðstafana vegna bilunarinnar.

„Fyrir daginn í dag erum við þegar búin að skerða hjá stórnotendum okkar, sem eru sundlaugarnar okkar, gervigrasvellir. Og við erum í raun búin að loka öllum sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Sólrún.

Íbúar þurfi ekki að hafa áhyggjur

Sólrún segir ljóst að sundlaugarnar standi lokaðar út daginn en vonir séu bundnar við að viðgerð á varmastöð, þar sem bilunin kom upp, klárist í dag.

„Þetta er ein af okkar stærri bilunum. Þegar Nesjavellir fóru út þá var það álíka bilun. En þetta eru okkar stærstu varmavinnslur, það eru Nesjavellir og Hellisheiði,“ segir Sólrún.

„En íbúar þurfa ekki að hafa áhyggjur og við vonumst til að þetta muni leysast vel í dag. Og hvetjum fólk til að fara vel með heita vatnið okkar.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×