Innlent

Skítakuldi í kortunum en sólin gleður

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Landsmenn ættu að fara að finna til hlýju fötin sín.
Landsmenn ættu að fara að finna til hlýju fötin sín. Veður

Það er óhætt að segja að kalt veður sé í kortunum hjá landsmönnum í flestum landshlutum nú þegar innan við tvær vikur eru til jóla. Sem betur fer ætlar sólin að kíkja reglulega í stuttar heimsóknir.

Sé horft til veðurspár Veðurstofu Íslands má sjá að heldur kólnar eftir því sem líður á vikuna. Kaldast verður á föstudaginn, gangi spáin eftir, en þá gætu Akureyringar þurft að finna til föðurlandið. Spáð er tuttugu stiga frosti í hádeginu þann dag. Litlu hlýrra verður á Egilsstöðum eða um sautján gráðu frost.

Sem betur fer virðist lítill vindur fylgja köldu spánni. Þá verður sólin reglulegur gestur í öllum landshlutum og ástæða til að hvetja landsmenn, sem tök hafa, til að kíkja aðeins út úr húsi þann skamma tíma sem sú gula heimsækir okkur og hlaða á D-vítamínið.

Eftir tíu daga fer svo daginn aftur að lengja. Vetrarsólstöður eru 21. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×