Oddný Harðardóttir varaformaður velferðarnefndar segir uppsögn forstjóra Sjúkratrygginga mikið áhyggjuefni.
Ég held að þetta sé mjög alvarlegt mál og birtingarmynd stefnuleysis ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum,“ segir hún
María Heimisdóttir forstjóri stofnunarinnar hefur ekki viljað koma í viðtal vegna málsins en í bréfi hennar til samstarfsmanna í vikunni kom fram að hún gæti ekki borðið ábyrgð á verkefnum stofnunarinnar því hún sé vanfjármögnuð.
Hún sendi bréf fyrir hönd Sjúkratrygginga til fjárlaganefndar Alþingis í haust. Þar benti hún m.a. á að miklar hagræðingaraðgerðir hafi farið þar fram síðustu ár. Á sama tíma hafi verkefni Sjúkratrygginga stóraukist en rekstrarfé á föstu verðlagi dregist saman um tugi milljóna króna.

Ríkisendurskoðun gerði einnig miklar athugasemdir við starfsemi stofnunarinnar 2018 og síðan þá hafi verið unnið að því að laga annmarka. Í nýrri skýrslu Ríkiendurskoðunar sem fréttastofa hefur undir höndum kemur svo fram að búið sé að bæta úr þeim að mestu.
Heilbrigðisráðherra svaraði því til í fréttum okkar um málið að frá 2017 hafi stofnunin fengið aukin rekstrarframlög um fjögur hundruð milljónir króna.
Þá sagðist fjármálaráðherra í fréttum RÚV í gær vera ósammála því að stofnunin sé fjársvelt. Hundrað milljónum hafi verið bætt í reksturinn fyrir næsta ár. Ráðherrann bætti við að uppsögnin væri merki um átök innanhúss og vísaði á heilbrigðisráðherrann í þeim efnum.
Oddný segir hins vegar að staðan sé birtingamynd fjársvelts heilbrigðiskerfis.
„Það eru ekki nægir fjármunir til að reka stofnunina. Undir eru fullt af samningum við sérfræðilækna og ef það kemur ekki meira fjármagn þá muni það valda miklu tjóni fyrir heilbrigðisþjónustuna í landinu. Við stöndum svolítið frammi fyrir því að heilbrigðiskerfið okkar og sjúkratryggingakerfið sem á að byggjast á samhjálp og samtryggingu stendur ekki undir nafni,“ segir Oddný að lokum.