Innlent

Óttast dreifingu ösku á úti­vistar­svæðum og í al­mennings­görðum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Frumvarpið er þverpólitískt samstarf nokkurra þingmanna.
Frumvarpið er þverpólitískt samstarf nokkurra þingmanna.

Reykjavíkurborg segir útivistarsvæði sveitarfélaga mögulega geta orðið eftirsótt fyrir öskudreifingu, ef öskudreifing verður gefin frjáls. Lagt er til að afla verði heimildar landeigenda eða umráðamanna lands áður en ösku er dreift.

Þetta kemur fram í umsögn Reykjavíkurborgar vegna frumvarps um dreifingu ösku eftir líkbrennslu.

Í frumvarpinu er lagt til að dreifing ösku verði gefin frjáls og að óskir hins látna um hvar og hvernig öskunni er dreift séu virtar. 

Reykjavíkurborg segir að svo virðist sem flutningsmenn frumvarpsins reikni ekki með neinum takmörkunum á dreifingu ösku og segja þá stöðu geta komið upp að eigandi eða umráðamaður lands sé ósáttur við dreifingu öskunnar á landinu, þrátt fyrir vilja hins látna.

„Útivistarsvæði sveitarfélaga gætu mögulega orðið eftirsótt fyrir öskudreifingu,“ segir í umsögn borgarinnar. „Eðlilegt er að sveitarfélagið hefði eitthvað um það að segja hvort ösku yrði dreift á útivistarsvæði en auðvitað mætti hugsa sér að sveitarfélag skilgreindi ákveðið svæði þar sem heimilt væri að dreifa ösku.“

Telja ónauðsynlegt að rýmka heimildir til dreifingar ösku

Kirkjugarðaráð hefur einnig skilað inn umsögn vegna frumvarpsins og gerir meðal annars athugasemd við það að frjáls dreifing ösku gæti stangast á við önnur lög, til að mynda um hollustuhætti.

Þá er gerð athugasemd við málsgrein sem hljóðar þannig:

„Virða ber ósk hins látna um hvar og hvernig ösku er dreift eða hún varðveitt sé ósk hins látna sú að askan sé ekki jarðsett.“

„Með ofangreindri tillögu verður ekki annað séð en að hægt verði að geyma ösku látinna og/eða dreifa henni hvar sem er án takmarkana. Þetta vekur spurningar um hvort framvegis verði jafnvel hægt að dreifa ösku innan skipulagðra svæða í þéttbýli til dæmis í íbúðahúsa- eða í almenningsgörðum,“ segir í umsögn Kirkjugarðaráðs.

Ráðið segir að sér hafi ekki borist kvartanir vegna þess hvernig málum er háttað nú, þar sem sækja þarf um leyfi hjá sýslumanni til að dreifa ösku á öræfum eða sjó. Því telji ráðið ekki brýna nauðsyn á að rýmka heimildir til dreifingar ösku að svo stöddu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.