Innlent

Neitaði að yfir­gefa lög­reglu­stöð þrátt fyrir að vera laus úr haldi

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Lögreglustöðin Hverfisgötu
Lögreglustöðin Hverfisgötu

Ofurölvi einstaklingur sem fluttur var á lögreglustöð í nótt neitaði að fara heim þrátt fyrir að vera laus úr haldi. Þetta er meðal þess sem fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en talsverður erill var hjá lögreglunni í nótt.

Fram kemur í dagbók lögreglunnar að um eittleytið í nótt hafi verið tilkynnt um ofurölvi einstakling á veitingastað sem neitaði að fara. Þegar lögreglu bar að garði var aðilanum vísað á dyr en neitaði hann að yfirgefa staðinn. Lögregla neyddist til að færa aðilann út og var hann fluttur á lögreglustöð. Þegar þangað var komið neitaði aðilinn einnig að fara af lögreglustöðinni og heim til sín þrátt fyrir að vera laus úr haldi lögreglu. Mat lögreglu að ekki væri hægt að skilja viðkomandi eftir úti í þessu ástandi og endaði málið með því að aðilinn var vistaður í fangageymslu þangað til hann gæti sýslað með einkahagi sína.

Fyrr um kvöldið var tilkynnt um mann sem var kominn inn í íbúð í miðbænum en var þar óvelkominn. Lögregla kom á staðinn og var maðurinn þá sofandi í íbúðinni og hafði valdið einhverju tjóni innandyra. Hann var þá handtekinn og fluttur á lögreglustöð þar sem hann neitaði að segja til nafns og var vistaður í þágu rannsóknar málsins.

Einnig var tilkynnt um líkamsárás í miðbænum. Þolandinn var með áverka í andliti eftir árásina og er málið í rannsókn.

Þá var tilkynnt um ofurölvi mann sofandi í garði. Lögregla kom á staðinn og reyndi að fá upplýsingar um hver hann væri eða hvar hann ætti heima. Eftir ítrekaðar árangurslausar tilraunir var aðilanum ekið á lögreglustöð þar sem hann fær að sofa úr sér þangað til hægt er að aka honum heim.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×