Innlent

Starfaði ekki með börnum fyrir Samtökin '78

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Konan starfaði sem sjálfboðaliði fyrir Samtökin '78 en hefur vikið frá störfum eftir að ásakanir á hendur henni rötuðu á borð stjórnar samtakanna.
Konan starfaði sem sjálfboðaliði fyrir Samtökin '78 en hefur vikið frá störfum eftir að ásakanir á hendur henni rötuðu á borð stjórnar samtakanna. Vísir/Egill

Fyrrverandi formaður félagaráðs Samtakanna '78, sem nú hefur vikið frá störfum vegna ásakana um kynferðisofbeldi í garð barna, starfaði ekki með börnum á vegum samtakanna. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn Samtakanna '78. Fyrr í dag greindi Vísir frá því að rúmlega þrítug kona, fyrrverandi starfsmaður í grunnskóla og fyrrverandi formaður félagaráðs samtakanna, hefði verið sökuð um kynferðislega misnotkun og áreiti gegn börnum. Hún hafi hætt störfum fyrir samtökin í vikunni. 

„Stjórn Samtakanna ’78 bárust í vikunni ábendingar vegna ásakana um kynferðisofbeldi í garð barna af hálfu fyrrverandi formanns félagaráðs. Aðgerðaráætlun Samtakanna ’78 vegna ofbeldis var virkjuð um leið og málið barst og er því í faglegu ferli innan Samtakanna ’78 og hefur einnig verið tilkynnt til viðeigandi yfirvalda,“ segir í tilkynningunni, sem stjórn samtakanna er skrifuð fyrir og var send fréttastofu af Álfi Birki Bjarnasyni, formanni Samtakanna '78. 

Þar kemur þá fram að konan hafi hætt störfum fyrir samtökin, sem hún sinnti sem sjálfboðaliði, auk þess sem hún hefði aldrei starfað með börnum eða ungmennum á vegum samtakanna. 

„Auk þess sem sjálfboðaliðar Samtakanna ’78 starfa aldrei einir á vettvangi sem er liður í því að tryggja öryggi bæði gesta og sjálfboðaliðanna sjálfra. Samtökin ’78 munu ávallt standa með þolendum kynferðisofbeldis og svona mál eru litin alvarlegum augum.“

Þá kemur fram að samtökin bjóði upp á fjölbreytilega og faglega ráðgjöf til hinsegin fólks eða vegna mála sem snertir það. Slík ráðgjöf standi þolendum í þessu máli til boða að kostnaðarlausu, rétt eins og öðrum.

„Við ítrekum að viðkomandi sjálfboðaliði starfar ekki lengur á vettvangi Samtakanna ’78 og hefur aldrei starfað með börnum eða ungmennum á okkar vegum,“ segir í niðurlagi tilkynningarinnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.