Innlent

Marg­dæmdum skatt­svikara gert að greiða 130 milljónir

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Þetta er í fjórða sinn sem Jón Arnar er dæmdur fyrir skattalagabrot.
Þetta er í fjórða sinn sem Jón Arnar er dæmdur fyrir skattalagabrot. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Jón Arnar Pálmason í 24 mánaða fangelsi, þar af 21 mánuð skilorðsbundinn, fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum. Jón Arnar þarf einnig að greiða 131 milljón í sekt til ríkissjóðs auk málsvarsþóknunar verjanda síns.

Þetta er í fjórða sinn sem Jón Arnar hlýtur dóm fyrir skattalagabrot. Árið 2015 hlaut hann dóm fyrir að hafa hvorki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum né staðgreiðslu opinberra gjalda. Þá var hann einnig dæmdur árin 2011 og 2012 fyrir sambærileg skattalagabrot.

Héraðsdómur kvað upp dóm sinn hinn 10. nóvember síðastliðinn. Aftur er Jóni Arnari gefið að sök að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslu í einkahlutafélagi. Hann var daglegur stjórnandi félagsins með prókúru og skráður stjórnarformaður þess.

Játaði brotin skýlaust

Honum var einnig gefið að sök að hafa eigi staðið skil á staðgreiðsluskilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda rekstrarárið 2020 og í janúar, febrúar, maí og ágúst rekstrarárið 2021. Þá hafi hann vanrækt að standa skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins.

Jón Arnar játaði brot sín skýlaust og taldi dómurinn ekki efni til að efast um gildi játningarinnar. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að hann hafi nú fjórum sinnum verið sakfelldur fyrir umfangsmikil, meiri háttar brot gegn skattalögum. Á móti komi að hann hafi játað umbúðalaust. Með hliðsjón af atvikum þótti dómara refsing hæfilega ákveðin 24 mánuði, þar af 21 mánuður skilorðsbundinn.

Eins og fyrr segir ber honum að greiða rúma 131 milljón í sekt, innan fjögurra vikna, ella sæta fangelsi í 360 daga. Þá ber honum einnig að greiða málsvarsþóknun verjanda síns, 279 þúsund krónur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×