„Ég var að reyna verða ófrísk. Þetta var ferli sem tók virkilega mikið á, tækifrjóvgunarferlið,“ segir Aniston í desember tölublaði tímaritsins.
Jennifer var gift leikaranum Brad Pitt frá árinu 2000 til ársins 2005. Í kjölfar skilnaðarins fóru af stað sögur um það að Pitt hafi bundið enda á hjónabandið vegna þess að Aniston hafi ekki viljað eignast börn. Aniston segir þær sögusagnir hafa sært hana djúpt.
„Ég gaf allt sem ég átti í þetta“
„Þetta var hrein lygi. Þessar sögur um að ég væri svona sjálfhverf og ferillinn væri það eina sem skipti mig máli. Að ástæðan fyrir því að eiginmaðurinn minn fór frá mér hafi verið vegna þess að ég vildi ekki gefa honum börn.“
Hún bætir því þó við að konur hafi fullan rétt á því að velja starfsframa fram yfir barneignir. Það hafi þó ekki verið raunin í hennar tilfelli.
„Ég var í miðju tæknifrjóvgunarferli, drakk kínversk te og bara nefndu það. Ég gaf allt sem ég átti í þetta. Ég gæfi hvað sem er fyrir það að einhver hefði bara sagt mér að frysta eggin mín. Mér bara datt það ekki í hug. Svo hér er ég í dag og þetta er liðin tíð.“
Var nóg boðið
Jennifer byrjaði með leikaranum Justin Theroux árið 2011 og voru þau saman í um sjö ár. Á meðan á sambandi þeirra stóð birtust ítrekaðar fyrirsagnir í fjölmiðlum þess efnis að Aniston væri ófrísk. Árið 2016 var henni nóg boðið og birti hún pistil í dagblaðinu Huffington Post.
Sjá: Aniston sögð barnshafandi
„Ég er ekki ófrísk og ég er gjörsamlega komin með nóg,“ skrifaði Aniston. „Ég er orðin svo þreytt á þessum sögum. Já, kannski verð ég móðir einn daginn. Ef það gerist þá verð ég fyrst til þess að greina frá því. En ef ég kýs að verða móðir, þá er það ekki vegna þess að mér finnst ég ófullkomnuð án þess,“ skrifaði hún árið 2016.
„Ekki lengur spurning um hvort ég geti eignast börn“
Í dag er Aniston 53 ára gömul og barnlaus. Hún segist sátt við þann stað sem hún er á í dag og segir hún sextugsaldurinn vera að fara einstaklega vel með sig.
„Í rauninni finn ég fyrir létti, því nú er þetta ekki lengur spurning um hvort ég geti eignast börn. Ég þarf ekki að velta mér upp úr því lengur. En ef ég hefði ekki gengið í gegnum þetta, þá hefði ég aldrei orðið sú sem ég er. Þannig ég er orðin þakklát fyrir allan þann skít sem ég hef gengið í gegnum.“