Lífið

Net­verjar missa sig yfir ó­þekkjan­legum Zac Efron

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Leikarinn Zac Efron er óþekkjanlegur í nýju hlutverki.
Leikarinn Zac Efron er óþekkjanlegur í nýju hlutverki. Skjáskot

Leikarinn og sjarmatröllið Zac Efron er nánast óþekkjanlegur í nýju hlutverki sem hann fer með þessa dagana. Á nýlegum myndum af Efron má sjá hann vöðvastæltari en nokkru sinni fyrr, með klippingu sem minnir helst á Prins Valíant.

Efron fer með hlutverk glímukappans Kevin Von Erich í kvikmyndinni The Iron Claw sem kemur út á næsta ári. Um er að ræða fjölskyldudrama þar sem þremur kynslóðum glímukappa er fylgt eftir frá árinu 1960 til dagsins í dag. Aðrir leikarar í myndinni eru Lily James, Harris Dickinson og Jeremy Allen White. 

Efron þurfti að bæta á sig töluverðum vöðvamassa fyrir hlutverkið. Það er þó ekki í fyrsta sinn, því hann þurfti að leggja á sig svipaða vinnu árið 2017 þegar hann fór með eftirminnilegt hlutverk í kvikmyndinni Baywatch.

Leikarinn Zac Efron segist hafa farið í ofþjálfun við undirbúning á kvikmyndinni Baywatch.PARAMOUNT PICTURES

Fór öðruvísi að í þetta skiptið

Í viðtali við tímaritið Men's Health segist Efron þó ekki hafa verið stoltur af þeim aðferðum sem hann notaði til þess að komast í Baywatch líkamsformið. Hann hafi farið í ofþjálfun sem leiddi til minnisleysis og þunglyndis.

Hann ákvað því að fara öðruvísi að í þetta skiptið. Lagði hann ríka áherslu á jógaiðkun, nudd, teygjur, rúllur og ísböð. Af myndum að dæma virðist sú vinna hafa skilað sér, því Efron er vöðvastæltari en nokkru sinni fyrr.

Stærri kjálkar tilkomnir vegna óhapps

Þá hefur gjörbreytt andlitsfall Efrons einnig vakið talsverða athygli. Á nýlegum myndum af leikaranum má sjá að kjálkar hans er töluvert stærri en hann var áður og voru aðdáendur vissir um að hann hefði farið í fegrunaraðgerð.

Efron neitaði fyrir það og útskýrði breytinguna á andliti sínu í viðtali við Men's Health. Sagðist hann hafa dottið á höfuðið árið 2013 með þeim afleiðingum að kjálkinn hans brotnaði. Eftir þetta óhapp hafi hann þurft að fara í endurhæfingu og gera reglulegar kjálkaæfingar.

Á síðasta ári hafi hann svo verið mikið á farandsfæti vegna þáttanna Down To Earth og ekki haft tíma fyrir kjálkaæfingarnar. Kjálkavöðvarnir hafi þá farið í kerfi og tyggivöðvinn reynt að bæta upp fyrir vanvirkni hinna kjálkavöðvanna, með þeim afleiðingum að hann tútnaði út.

Andlitsfall leikarans hefur óneitanlega breytst mikið.Getty/Jon Furniss-Rodin Eckenroth

Kjálkar, vöðvar og nýtt hár

Auk kjálkanna og vöðvamassans skartar Efron nýrri klippingu vegna nýja hlutverksins og er hann nánast óþekkjanlegur.

Samfélagsmiðlar loguðu þegar myndir af Efron í hlutverki glímukappans rötuðu á netið. Þá hafa netverjar keppst við að búa til samsettar myndir af Efron og öðrum þekktum persónum sem hann þykir líkjast. Dæmi nú hver fyrir sig.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×