Innlent

Munaði einungis tveimur at­kvæðum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Jón Grétar Þórsson (t.v.) er nýr gjaldkeri Samfylkingarinnar. Aðeins tveimur atkvæðum munaði á honum og Stein Olav Romslo.
Jón Grétar Þórsson (t.v.) er nýr gjaldkeri Samfylkingarinnar. Aðeins tveimur atkvæðum munaði á honum og Stein Olav Romslo.

Kristrún Frostadóttir hlaut 94,59 prósent atkvæða er hún var kjörin formaður Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins um helgina. Jón Grétar Þórsson hlaut 139 atkvæði í kosningu til gjaldkera flokksins en Stein Olav Romslo 137 atkvæði.

Þetta kemur fram í niðurstöðum kosninganna sem birtar voru á heimasíðu Samfylkingarinnar fyrr í dag. Kristrún var ein í framboði og fékk stuðning 94,59 prósent þeirra sem greiddu atkvæði. Rúm fimm prósent sátu hjá. Á kjörskrá voru 382 manns og var kjörsókn 77,49 prósent.

Guðmundur Ari Sigurjónsson var kjörinn formaður framkvæmdarstjórnar flokksins og felldi sitjandi formann í kosningunum, Kjartan Valgarðsson. Guðmundur Ari hlaut 72,73 prósent atkvæða gegn 27,27 prósentum Kjartans.

Arna Lára Jónsdóttir var kjörin ritari flokksins með 59,77 prósentum atkvæða. Mótherji hennar, Alexandra Ýr van Erven hlaut 39,85 prósent atkvæða og skiluðu 0,38 prósent kjósenda auðu.

Jón Grétar Þórsson var kjörinn gjaldkeri flokksins. Hann rétt sigraði mótherja sinn, Stein Olav Romslo, en einungis tveimur atkvæðum munaði á þeim. Jón Grétar hlaut 139 atkvæði, 49,64 prósent, og Stein Olav 137 atkvæði, 48,93 prósent. 1,43 prósent kjósenda skiluðu auðu, alls fjórir einstaklingar.

Guðmundur Árni Stefánsson var einn í framboði til varaformanns og var því sjálfkjörinn.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×