Menning

„Ég myndi aldrei láta það uppi“

Óttar Kolbeinsson Proppé og Viktor Örn Ásgeirsson skrifa
Vigdís segir að með ljóðum varðveitum við íslenska tungu sem er dýrmætari en allt annað
Vigdís segir að með ljóðum varðveitum við íslenska tungu sem er dýrmætari en allt annað Vísir/Vilhelm

Ljóð sem fylgt hafa Vigdísi Finnbogadóttur í gegnum lífið voru gefin út á bók í dag. Hún ber titilinn Ljóðin hennar Vigdísar en fyrrverandi forsetinn valdi öll ljóðin sem birtast í henni. Sjálf segist hún aldrei ætla að láta það uppi hvort hún eigi ljóð eftir sjálfa sig, falin í einhverri skúffunni.

Útgáfu bókarinnar var fagnað við hátíðlega athöfn í Safnahúsinu í dag.

Þar hélt Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ræðu til heiðurs Vigdísar og minntist þar meðal annars á skáp í Thomsenstofu á Bessastöðum en þangað hafði Vigdís safnað urmul ljóðabóka í forsetatíð sinni.

Hún hefur alltaf verið ljóðelsk að eigin sögn.

„Já, ég man ekki eftir mér öðruvísi. En ég er náttúrulega alin upp þannig að mitt fólk var mjög ljóðelskt og það var mikið farið með ljóð í minni bernsku og æsku. Ljóðin hafa bundið svo vel íslenska tungu. Og með ljóðum varðveitum við þessa tungu sem er okkur dýrmætari en allt annað. Á meðan við tölum íslenska tungu þá erum við öðruvísi en annað fólk í heiminum,“ segir Vigdís.

Við útgáfuhófið voru veitt ný hvatningarverðlaun Vigdísar Finnbogadóttur sem Brynja Hjálmsdóttir skáld og rithöfundur tók við.

Brynja Hjálmarsdóttir, rithöfundur og skáld, tók við hvatningarverðlaunum Vigdísar Finnbogadóttur við útgáfuhófið.Vísir/Vilhelm

„Á meðan að ljóðlistin og útgáfa ljóða eru vinsælar jólagjafir og fermingagjafir - nú er ég með áróður; vinsælar fermingagjafir - þá lifir ljóðlist á Íslandi.“ 

En hvað er það í ljóðum sem nær Vigdísi? Hvernig voru ljóðin valin í nýju bókina?

„Að það sé í þeim ákveðin lífsspeki, hrynjandi auðvitað og að leika sér að tungumálinu. En líka speki. Vegna þess að tungumálið geymir alla visku mannsins.“

Þú hefur ekkert sjálf leikið þér við að semja eða hvað? 

„Ég myndi aldrei láta það uppi,“ segir Vigdís glettin.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands var viðstaddur útgáfuhófið í dag.Vísir/Vilhelm





Fleiri fréttir

Sjá meira


×