Innlent

Vill kanna hvort borgin geti haldið úti nætur­strætó innan borgar­markanna

Atli Ísleifsson skrifar
Alexandra Briem, varaformaður stjórnar Strætó, segir það vera öryggismál að tryggja rekstur næturstrætó og að leysa fráflæðisvanda í miðborginni um helgar.
Alexandra Briem, varaformaður stjórnar Strætó, segir það vera öryggismál að tryggja rekstur næturstrætó og að leysa fráflæðisvanda í miðborginni um helgar. Vísir/Vilhelm

Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata og varaformaður stjórnar Strætó, segir það hundleiðinlegt að Strætó hafi ákveðið að hætta að bjóða upp á næturstrætó um helgar. Hún vilji þó kanna hvort borgin gæti mögulega sjálf haldi úti slíkum akstri á slíkum leiðum innan borgarmarkanna.

Greint var frá því í morgun að Strætó hefði ákveðið að hætta að bjóða upp á næturstrætó um helgar. Var það gefið upp sem ástæða að farþegafjöldinn á leiðunum hafi ekki verið jafn mikill og búist var við.

„Næturstrætó var tilraunaverkefni í sumar og út september, og reyndar aðeins inn í október, en það var ekki fjármagnað. Í ljósi þess að það fékkst ekki auka fjármagn fyrir þessu Strætómegin þá var ekki hægt að halda því áfram.

Hvað Strætó varðar þá skil ég að þessi ákvörðun var nauðsynleg, en hvað Reykjavíkurborg varðar þá viljum við skoða það mjög vel hvort að ekki sé hægt að halda þessu áfram á þeim leiðum sem eru á okkar vegum ef svo má segja,“ segir Alexandra. Um sé að ræða bæði öryggismál og leið til að bæta fráflæðisvanda í miðborginni.

Rekstur Strætó hefur verið þungur síðustu misserin.Vísir/Vilhelm

Ætla að „koma á næturstrætó“

„Við ætlum að koma á næturstrætó,“ stendur skýrum stöfum í samstarfssáttmála Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar í Reykjavík sem kynntur var í júní.

„Ég geri ráð fyrir að við viljum finna peninga fyrir þessu, en áður en við fáum eitthvað formlega samþykkt þá get ég ekki lofað neinu. Ég væri þó ekki að segja þetta út á við nema að mér þætti þetta sennilegt,“ segir Alexandra.

Í tilkynningunni sem Strætó sendi á fjölmiða í morgun sagði að í septembermánuði hafi að meðaltali fjórtán til sextán farþegar verið í hverri ferð. Um hverja helgi væru rétt rúmlega þrjú hundruð farþegar sem nýttu sér þjónustuna. Höfðu vonir staðið til að farþegar yrðu fleiri en það.


Tengdar fréttir

Hætta með nætur­strætó

Strætó hefur ákveðið að hætta að bjóða upp á næturstrætó um helgar. Ljóst er að farþegafjöldi í næturstrætó var ekki jafn mikill og búist var við. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×