Innlent

Karitas H. Gunnars­dóttir er látin

Atli Ísleifsson skrifar
Karitas H. Gunnarsdóttir.
Karitas H. Gunnarsdóttir. Aðsend

Karitas H. Gunnarsdóttir, fyrrverandi skrifstofustjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, er látin, 62 ára að aldri. Hún lét af störfum í ráðuneytinu fyrr á þessu ári og var í hópi reynslumestu starfsmanna stjórnarráðsins.

Greint er frá andlátinu í Morgunblaðinu í morgun. Karitas var lögfræðingur að mennt og lauk framhaldsnámi í höfundarrétti í Kaupmannahöfn í Danmörku.

Hún starfaði við fjölmiðla áður en hún hóf störf í umhverfisráðuneytinu árið 1993. Tveimur árum síðar flutti hún sig yfir í mennta- og menningarmálaráðuneytið og var staðgengill ráðuneytisstjóra undanfarin tólf ár.

Karitas var gift Kjartani Ólafssyni, útflytjanda sjávarafurða. Sonur hennar er Gaukur Jörundsson, fæddur 1988, og sonur Kjartans er Guðmar Valþór, fæddur 1982.

Karitas var dóttir leikarans Gunnars Eyjólfssonar og Guðríðar Katrínar Arason, en systir hennar er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður og formaður Viðreisnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×