Innlent

Fjór­tán ára flúði lög­reglu á ofsa­hraða á Holta­vörðu­heiði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lögreglumennirnir í Borgarnesi hafa vafalítið verið nokkuð hissa þegar fjórtán ára ökumaður vitjaði bílsins.
Lögreglumennirnir í Borgarnesi hafa vafalítið verið nokkuð hissa þegar fjórtán ára ökumaður vitjaði bílsins. Vísir/Egill

Fjórtán ára unglingur er grunaður um að hafa ekið á ofsahraða yfir Holtavörðuheiði á föstudag. Málið var tilkynnt til barnaverndar.

Skessuhorn, fréttaveita Vesturlands, greinir frá þessu óvenjulega verkefni sem lögreglumenn í Borgarnesi sinntu. Lögreglu barst tilkynning um ofsaakstur suður Holtavörðuheiði og óku til móts við bílinn. Bílarnir mættust við Baulu en ökumaður sinnti ekki merkjum lögreglu um að stöðva för bílsins.

Þvert á móti gaf ökumaður í og hvarf sjónum. Lögregla kom svo að bóndabæ í grenndinni þar sem ábúandi var nokkuð skelkaður. Gat hann bent lögreglu á bílinn sem hafði verið lagt við skemmu.

„Þar sást jafnframt í iljarnar á tveimur krökkum sem hurfu sjónum inn í skóg og missti lögreglan af þeim. Hafin var leit að þeim við Borgir og norður af Munaðarnesi en án árangurs,“ segir í frétt Skessuhorns.

Bíllinn hafi verið fluttur í Borgarnes með kranabíl. Þangað mættu svo ungmenni til að vitja bílsins. Ökumaðurinn reyndist fjórtán ára og farþeginn á svipuðum aldri. Þau sögðust hafa fengið bílinn að láni og hann var ekki tilkynntur stolinn.

Segir í fréttinni að ökumaðurinn eigi von á kæru fyrir að aka án réttinda og að sinna ekki fyrirmælum lögreglu. Lögregla hafði samband við foreldra og tilkynnti málið til barnavendar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×