Innlent

Sauðfjárrækt er lífsstíll

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Fjöldi fólks sótti Dag sauðkindarinnar í Rangárhöllinni laugardaginn 1. október.
Fjöldi fólks sótti Dag sauðkindarinnar í Rangárhöllinni laugardaginn 1. október. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Það var mikil stemning á Hellu í gær þegar Dagur sauðkindarinnar var haldin hátíðlegur í Rangárhöllinni. Mikill drifkraftur er í sauðfjárrækt í Rangárvallasýslu og mikill metingur á meðal bænda hver ræktar besta féð.

Það var múgur og margmenn í Rangárhöllinni í gær að skoða fallegt sauðfé úr Rangárvallasýslu, auk þess sem keppt var í nokkrum flokkum. Verðlaun voru til dæmis veitt fyrir besta hyrnda lambhrútinn, bestu kollóttu gimbrina, besta veturgamla hrútinn, þykkasta bakvöðvann og síðast en ekki síst litfegurstu gimbrina. Ræktunarbú ársins var líka verðlaunað en það er búið á Kaldbak á Rangárvöllum hjá þeim Sigríði Heiðmundsdóttir og Viðari Steinarssyni.

Sigríður var að vonum mjög ánægð með daginn.

“Það að vera fjárbóndi er bara lífið, það er það besta en þú verður sjálfsagt alltaf að hafa eitthvað annað með til að lifa, en það að vera fjárbóndi er bara það besta í heimi,” segir Sigríður.

En eru lömbin og kindurnar mismunandi karakterar?

“Já, já, sumt er alveg snarvitlaust og maður ræður ekkert við það. Ég er að reyna að fara að minnka aðeins féð, því eftir því sem maður eldist, þá er ég ekki eins kraftmikil og ætla því að hafa minna fé í framtíðinni”.

Að vera sauðfjárbóndi er það besta í heimi segir Sigríður á Kaldbak.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Lovísa Herborg Ragnarsdóttir á Hemlu stýrði Degi sauðkindarinnar af mikill röggsemi eins og svo oft áður.

“Já, þetta er mjög gaman og margir, sem hafa áhuga á þessu. Þetta er fjórtánda árið, sem við höldum þessa sýningu. Það er öflug sauðfjárrækt í Rangárvallasýslu, það gefur engin eftir þar. Hér er engin að kvarta og kveikna, en að vera með sauðfé er náttúrulega lífsstíll eins og einhvers staðar var sagt. Sauðfjárræktin lifir með þjóðinni, enda hvað er betra en lambalæri með brúnuðum og brúnni sósu,” segir Lovísa Herborg hlægjandi.

Lovísa Herborg á Hemlu, sem stýrði Degi sauðkindarinnar eins og herforingi í Rangárhöllinni í gær.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Sigríður og Viðar, sauðfjárbændur á Kaldbak, sem eru með ræktunarbú ársins 2021 í Rangárvallasýslu. Hér eru þau með barnabörnum sínum, frá vinstri, Viðar Freyr Garðarsson rétt tæplega 11 ára, Úlfur Ragnarsson 6 ára, Helga Björk Garðarsdóttir 8 ára og Kári Ragnarsson 2 ára.Aðsend


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×