Enski boltinn

„Erum ekki að fara að mæta Haaland, við erum að fara að mæta Machester City“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Erik ten Hag ætlar ekki að einblína einungis á það verkefni að stöðva Erling Braut Haaland.
Erik ten Hag ætlar ekki að einblína einungis á það verkefni að stöðva Erling Braut Haaland. Jose Breton/Pics Action/NurPhoto via Getty Images

Erki ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur fulla trú á því að sínir menn geti sigrað Englandsmeistara Manchester City er liðin mætast í borgarslag í ensku úrvalsdeildinni á morgun. Hann segir einnig að liðið ætli ekki að einbeita sér eingöngu að því að stöðva norsku markamaskínuna Erling Braut Haaland.

Haaland hefur fengið fljúgandi start í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og skorað 11 mörk í fyrstu sjö deildarleikjum tímabilsins. Liðið hefur í heildina skorað 23 mörk og er Norðmaðurinn því búinn að skora tæplega 48 prósent marka liðsins.

Leikmaðurinn mun að öllum líkindum þurfa að kljást við Lisandro Martinez og Raphael Varane í vörn United-liðsins. Tvímenningarnir hafa náð vel saman undir stjórn hollenska þjálfarans Erik ten Hag í seinustu leikjum þar sem United hefur unni fjóra deildarleiki í röð. Ten Hag ætlar þó ekki að einblína einungis á það verkefni að stöðva Haaland á morgun, enda sé heilt lið sem tekur á móti þeim en ekki bara þessi eini leikmaður.

„Við erum ekki að fara að mæta Haaland, við erum að fara að mæta Machester City,“ sagði Ten Hag á blaðamannafundi í gær.

„Þeir eru með lið. Þeir eru með meira en 11 leikmenn, en við erum sannfærðir um það sem við getum gert og ef við spilum eins og lið, með og án bolta, þá getum við unnið leiki sem þennan.“

„Við verðum að trúa því þegar við stillum liðinu upp, þegar leikurinn hefst og í allar 90 mínúturnar sem leikurinn er í gangi,“ sagði Hollendingurinn að lokum.

Manchester United heimsækir nágranna sína í Manchester City á morgun klukkan 13:00 og verður í beinni textalýsingu hér á Vísi. Englandsmeistarar Manchester City sitja í öðru sæti deildarinnar með 17 stig eftir sjö leiki, fimm stigum meira en United sem situr í fimmta sæti.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.