Innlent

Skila skjölum Gerlach rúmlega átta áratugum síðar

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Skjöl þýska ræðismannsins voru gerð upptæk af hernámsliði Breta 10. maí 1940 og hafa þau verið varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands í áratugi.
Skjöl þýska ræðismannsins voru gerð upptæk af hernámsliði Breta 10. maí 1940 og hafa þau verið varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands í áratugi. Mynd/Þjóðskjalasafn Íslands

Þjóðskjalasafn Íslands mun skila skjölum til Þýskalands í sérstakri athöfn í næstu viku en umrædd skjöl voru í eigu þýska ræðismannsins á Íslandi og gerð upptæk af hernámsliði Breta árið 1940.

Skjölin eru frá árunum 1927 til 1940. Mynd/Þjóðskjalasafn Íslands

Að því er kemur fram í tilkynningu frá Þjóðskjalasafni Íslands mun Mike Hollman, forseti Sambandsskjalasafns Þýskalands, taka við skjölunum við sérstaka athöfn í Safnahúsinu við Hverfisgötu klukkan fjögur á mánudag. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun jafnframt flytja þar ávarp.

Skjölin eru frá árunum 1927 til 1940 en þau voru gerð upptæk þann 10. maí 1940 þegar Ísland var hernumið af Bretum. Þau eru varðveitt í fimm skjalatöskum en Þjóðskjalasafn Íslands fékk skjölin afhent úr utanríkisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu á árunum 1989 til 1990.

Þjóðskjalasafnið mun birta frumskjölin á vef sínum á mánudag. Mynd/Þjóðskjalasafn Íslands

Ekki liggur fyrir hvernig skjölin enduðu í ráðuneytunum en ótvírætt er að um þýsk skjöl séu að ræða frá Werner Gerlach, sem var þýski ræðismaðurinn á Íslandi á þeim tíma.

„Skjölin eru með réttu eign Þjóðverja og ef styrjöldin hefði ekki brostið á hefðu þau verið flutt til Þýskalands og varðveitt þar,“ segir í tilkynningu Þjóðskjalasafnsins.

Frumskjölin hafa öll verið mynduð og verða þau birt á vef Þjóðskjalasafns Íslands á mánudag.

Skjölunum verður skilað við sérstaka athöfn í Safnahúsinu á mánudag. Mynd/Þjóðskjalasafn Íslands


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.