Framhjáhald með samstarfsfélaga
Samkvæmt Variety höfðu sögusagnir um framhjáhald hans með samstarfsmanni verið í umræðunni í einhvern tíma og í gær tilkynnti hópurinn að Fulmer myndi ekki halda starfi sínu hjá hópnum. Samkvæmt TMZ náðist myndband af Fulmer og Alexandriu Herring, einum framleiðanda þáttanna, að kyssast.
Það var tilkynnt á Instagram síðu hópsins að Fulmer væri ekki lengur partur af teyminu líkt og sjá má hér að neðan:
Fulmer biðst afsökunar
Í framhaldinu gaf Fulmer sjálfur út yfirlýsingu þar sem hann segir fjölskylduna alltaf eiga að vera í forgangi en hann hafi misst sjónar á því. Hann segist hafa staðið í framhjáhaldi með samstarfsfélaga sínum, með samþykki aðilans.
„Ég biðst afsökunar á þeim sársauka sem gjörðir mínar hafa valdið strákunum og aðdáendunum en mest af öllu Ariel,“ segir hann um eiginkonu sína Ariel Fulmer. Hann segist ætla að setja alla sína orku í fjölskylduna og hjónabandið úr þessu en saman eiga þau tvo syni.
Ariel hefur sjálf þakkað fyrir falleg skilaboð og segir börn þeirra hjóna vera í fyrsta sæti á meðan þau séu að vinna úr þessu.
Try Guys
Hópurinn öðlaðist frægð sína á YouTube í gegnum vinnu sína hjá fjölmiðlinum Buzzfeed frá árinu 2014. Þeir stofnuðu sitt eigið fyrirtæki og hófu að gefa út myndbönd undir „Try Guys“ nafninu árið 2018.
Í dag eru þeir með 7,8 milljónir fylgjenda á YouTube, hafa gefið út bækur og stofnað hlaðvarp svo eitthvað sé nefnt. Fjöldi myndbanda úr þeirra smiðju hafa farið eins og eldur um sinu um netið og er ekki ólíklegt að margir hafi séð þeim bregða fyrir á samfélagsmiðlum.
Hér að neðan má sjá myndband þar sem hópurinn upplifir sársauka fæðingar í gegnum fæðingarhermi. Myndbandið er með rúmlega sextán milljónir áhorfa.