Innlent

Vilhjálmur sá þriðji sem ætlar í ritaraembættið

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Vilhjálmur Árnason er 38 ára þingmaður Suðurkjördæmis.
Vilhjálmur Árnason er 38 ára þingmaður Suðurkjördæmis. vísir/vilhelm

Vilhjálmur Árnason, varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, hefur gefið kost á sér til embættis ritara Sjálfstæðisflokksins. Hann er sá þriðji sem tilkynnir um framboð. Hann segist vilja efla Sjálfstæðisflokkinn um allt land og gefa rödd grasrótarinnar aukið vægi meðal forystu flokksins.

Greint var frá því í gær, laugardag, að það stefndi í harða baráttu um ritaraembættið. Bryndís Haraldsóttir, þingmaður og Helgi Áss Grétarsson sækjast einnig eftir embættinu. Jón Gunnarsson lætur af embættinu þar sem hann tók við ráðherraembætti og samkvæmt reglum flokksins má ritari ekki gegna ráðherraembætti á sama tíma. 

Kosið verður í embættið 4. nóvember á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Vilhjálmur tilkynnti um framboð sitt á Facebook.

Kæru vinir,

Árið 1999 var ég fyrst kosinn til trúnaðarstarfa í Sjálfstæðisflokknum þegar ég var kjörinn í stjórn Víkings, félags ungra Sjálfstæðismanna í Skagafirði. Alla tíð síðan hef ég verið virkur þátttakandi í starfi flokksins, bæði sem grasrótarmaður og sem alþingismaður síðustu 9 árin.

Sjálfstæðisflokkurinn býr að því að eiga öflugt fólk um allt land sem sameinast um grunnstefnu flokksins, trú á frelsi einstaklingsins til athafna og að tryggja öllum jöfn tækifæri.

Það er fólkinu í flokknum að þakka að Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti og öflugasti stjórnmálaflokkur á landinu. Við, kjörnir fulltrúar, sækjum okkar umboð til ykkar og því er nauðsynlegt að við séum í virku og góðu samtali við flokksmenn og kjósendur um allt land. Ekki aðeins í aðdraganda kosninga heldur líka þess á milli. Ég vil leggja mitt af mörkum til að efla Sjálfstæðisflokkinn um allt land og gefa rödd grasrótarinnar aukið vægi meðal forystu flokksins

Kæru vinir, ég hlakka til að sjá ykkur á landsfundi 4.-6. nóvember og óska eftir stuðningi ykkar í embætti ritara Sjálfstæðisflokksins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×