Innlent

„Getum alveg átt von á svona at­burðum eins og ná­granna­þjóðir okkar“

Ellen Geirsdóttir Håkansson og Snorri Másson skrifa
Katrín segist hafa frétt af málinu í gær.
Katrín segist hafa frétt af málinu í gær. Stöð 2

Tveir íslenskir karlmenn á þrítugsaldri eru í gæsluvarðhaldi vegna gruns um að hafa skipulagt hryðjuverk hér á Íslandi. Að sögn lögreglu má ætla að áformuð hryðjuverk hafi jafnvel beinst gegn Alþingi, stjórnmálamönnum eða lögreglunni. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir atburðinn gríðarlega alvarlegan. 

Í samtali við fréttastofu segir Katrín Jakobsdóttir að hún hafi frétt af málinu í gær en í kjölfarið hafi fulltrúar í þjóðaröryggisráði verið látin vita. Mál sem þessi sem hún segir megi skilgreina sem hryðjuverk, varði þjóðaröryggi. 

„Auðvitað verður manni illa við. Hins vegar er það auðvitað svo, dapurlegt sem það nú er, að við Íslendingar getum alveg átt von á svona atburðum eins og nágrannaþjóðir okkar auðvitað hafa upplifað,“ segir Katrín.

Aðspurð hvort þetta sé nýr veruleiki sem Íslendingar eigi að venjast segir Katrín atburðinn gríðarlega alvarlegan. Málið sé enn til rannsóknar en erfitt sé að taka utan um mál sem þessi þar sem vopnin séu heimatilbúin. 

„Það er ekki hægt til dæmis að fylgjast með innflutningi eins og hefðin hefur verið hingað til, heldur er þetta er búið til með löglegum tólum og tækjum. En ég vil segja það að lögreglan auðvitað stóð sig gríðarlega vel í að taka utan um mjög hættulega stöðu,“ segir Katrín.

Hún svarar því ekki hvort henni eða öðrum stjórnmálamönnum hafi verið ógnað en staðfestir að nokkrar stofnanir ríkisins hafi verið taldar í hættu. 

Hún segir skipta máli að lært sé af atburðum sem þessum og að lögreglan sé efld til þess að megi takast á við atburði sem þessa. 

Viðtalið við forsætisráðherra má sjá hér að ofan en það hefst á 06:52. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×