Lífið

Stofna minningar­sjóð Gunnars Karls

Bjarki Sigurðsson skrifar
Gunnar Karl lést í fyrra eftir baráttu við krabbamein.
Gunnar Karl lést í fyrra eftir baráttu við krabbamein. Rizza Fay Elíasdóttir

Fjölskylda Gunnars Karls Haraldssonar sem lést í fyrra eftir baráttu við krabbamein hefur sett upp minningarsjóð til minningar um Gunnar Karl til að styrkja einstaklinga með fatlanir. Gunnar Karl var mikill baráttumaður fyrir réttindum fatlaðs fólks.

Gunnar Karl glímdi við taugasjúkdóminn neurofibromatosis 1 (NF1) sem kallast taugatrefjaæxlager á íslensku. Einn af hverjum 4.500 einstaklingum fá þennan sjúkdóm en hann leggst mjög misjafnlega á fólk. Sjúkdómurinn lagðist afar þungt á Gunnar Karl.

Gunnar Karl þurfti að fara í fjölda aðgerða á ævi sinni, meðal annars á fótum, hrygg og mjöðm en þegar hann var sautján ára gamall var vinstri fótur hans tekinn af við hné.

Rætt var við Gunnar Karl um aðgerðina og árin fram að henni í Ísland í dag árið 2014.

Gunnar Karls var mikill baráttumaður fyrir málefnum fatlaðs fólks og var afar virkur í háskólapólitíkinni. Þar var hans helsta baráttumál bætt aðgengi fyrir fólk sem notast við hjólastól.

Í samtali við fréttastofu segir Hrefna Haraldsdóttir, systir Gunnars Karls, að með stofnun sjóðsins vilji fjölskylda hans halda helsta baráttumáli Gunnars Karls á lofti. Einstaklingar með fötlun geta sótt um styrk í sjóðinn vegna náms, tómstunda, íþróttaiðkunar eða annarra málefna sem styðja við þátttöku fatlaðra jafnt við aðra í samfélaginu.

Verndari sjóðsins er Heimir Hallgrímsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari í fótbolta, en hann var einn þeirra sem fór tíu kílómetra í hjólastól í Reykjavíkurmaraþoninu árið 2017 til styrktar Gunnari Karli.

Hægt er að lesa nánar um sjóðinn á heimasíðunni gunnarkarl.is. Þar er einnig hægt að sækja um styrki úr sjóðnum. 

Minningarsjóður Gunnars Karls Haraldssonar:

Kennitala: 480922-0500

Reikningsnúmer: 0582-14-250994


Tengdar fréttir

Gunnar Karl Haraldsson er látinn

Gunnar Karl Haraldsson framhaldsskólakennaranemi, Eyjapeyi og baráttumaður fyrir réttindum fatlaðs fólks er látinn 26 ára gamall. Fjölskylda hans greindi frá andlátinu á Facebook í dag en Gunnar Karl lést í morgun eftir baráttu við krabbamein.

Fór í hjartastopp í 26 mínútur

Gunnar Karl Haraldsson hefur alla tíð tekið hlutskipti sínu af æðruleysi. Hann fæddist með taugasjúkdóm sem lagðist mjög þungt á hann og hefur ekki tölu á þeim aðgerðum sem hann fór í sem barn og unglingur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×