Innlent

Tíma­móta­tré valið tré ársins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Björn Traustason, fagstjóri landupplýsinga hjá Skógræktinni, leiðbeinir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra við mælinguna á hæsta tré landsins. Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands er á hljóðnemanum.
Björn Traustason, fagstjóri landupplýsinga hjá Skógræktinni, leiðbeinir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra við mælinguna á hæsta tré landsins. Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands er á hljóðnemanum. Skógræktin/Pétur Halldórsson

Í fyrsta sinn frá því fyrir ísöld stendur nú þrjátíu metra hátt tré á Íslandi. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sló máli á hæsta tré landsins í dag og reyndist það vera 30,15 metrar á hæð.

Þetta kemur fram í frétt á vef Skógræktarinnar. Hið hávaxna tré er í skóginum við Kirkjubæjarklaustur. Var það útnefnt tré ársins við hátíðlega athöfn í dag.

Það var forsætisráðherra sem fékk heiðurinn að því að mæla tréið en henni til halds og trausts var Björn Traustason, fagstjóri landupplýsinga á rannsóknasviði Skógræktarinnar. Hann leiðbeindi Katrínu við þríhyrningsmælingu á trénu sem er sitkagreni gróðursett af fjölskyldunni á Klaustri árið 1949.

Mælingu Katrínar var bætt við röð mælinga sem Björn hafði þegar gert á trénu til að fá sem nákvæmasta tölu. Niðurstaðan er sú að fyrsta tréð hefur nú náð þrjátíu metra hæð á Íslandi frá því fyrir ísöld þegar hér uxu stórvaxnar trjátegundir sem náð gátu margra tuga metra hæð.

Frá vinstri: Hafberg Haraldsson í Lambhaga, Fanney Lárusdóttir, fulltrúi eigenda skógarins, Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands.Skógræktin/Pétur Halldórsson.

Í ávarpi sínu við tréð á Klaustri talaði Katrín Jakobsdóttir um mikilvægi skóga og skógræktar. Hún nefndi nýsamþykkta landsáætlun um landgræðslu og skógrækt, Land og líf, og þann mikilvæga þátt sem áætlunin væri í markmiðum Íslendinga í loftslagsmálum. Þar fyrir utan ætti hún persónulega kærar minningar frá þessum stað frá því þegar hún sýndi tilvonandi manni sínum skóginn snemma í sambandi þeirra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×