Innlent

Fólk í fjölskyldu-eða nágrannaerjum misnoti ábendingakerfi MAST

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Hrönn Ólína Jörundsdóttir, framkvæmdastjóri Matvælastofnunar
Hrönn Ólína Jörundsdóttir, framkvæmdastjóri Matvælastofnunar vísir/egill

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri Matvælastofnunar, segir að starfsfólk stofnunarinnar geti ekki varið sig þegar gagnrýnin umræða fari af stað um stofnunina. Það hafi ekki til þess heimild.

Þetta sagði Hrönn í viðtali hjá Reykjavík síðdegis þar sem hún var innt eftir viðbrögðum við óvæginni gagnrýni sem spratt í kjölfar meintrar illrar meðferðar á hestum á bæ í Borgarbyggð. Stofnunin hefur verið sökuð um sinnuleysi og seinagang og þá kallaði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, eftir því í gær að stofnunin yrði „stokkuð upp“.

Hrönn sagðist skilja almenning.

„Enginn vill sjá dýr í neyð. Við erum líka þar en við getum hins vegar ekki upplýst aðilana, sem senda inn ábendingar, um hvernig málin eru að vinnast af því að sá sem sendir inn ábendingu er ekki aðili að þessu máli. Við megum ekki upplýsa hvað við erum að sjá, hvað við erum að gera eða hvernig við erum að gera það. Og þess vegna upplifir almenningur í raun og veru bara aðgerðir Matvælastofnunar þegar þeim er lokið og það er alltaf okkar „dilemma“. Við getum aldrei varið okkur í þessari umræðu almennings.“

Hrönn sagði þá einnig að rannsóknarskylda hvíli á öllum eftirlitsstofnunum. Það sé til dæmis ekki hægt að fjarlægja dýr af sveitarbæ án þess að rannsókn hafi farið fram. Þá bætti hún við að það sé algengt að ábendingakerfi Matvælastofnunar sé misnotað.

„Við verðum líka að gera okkur grein fyrir því að ábendingakerfi Matvælastofnunar er nýtt til þess að reyna að klekkja á fólki. Við sjáum það líka að fólk í nágrannaerjum, fjölskylduerjum og skilnuðum nýtir sér ábendingakerfi Matvælastofnunar til að reyna að klekkja á hinum aðilanum.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×