Lífið

TikTok stjarna sem ólst upp í Latabæ og elskar Ísland

Elísabet Hanna skrifar
Chloe Lang kom fyrst til Íslands til að fara með hlutverk Sollu stirðu.
Chloe Lang kom fyrst til Íslands til að fara með hlutverk Sollu stirðu. Aðsend

Leikkonan Chloe Lang kom til Íslands þegar hún var aðeins níu ára gömul til þess að taka við hlutverki Sollu Stirðu í Latabæ. Í dag býr hún í New York, er orðin TikTok stjarna, elskar Ísland og kemur reglulega í heimsókn.

TikTok ævintýrið

Chloe náði sér í forritið TikTok þegar heimsfaraldurinn skall á og byrjaði að gera skemmtileg myndbönd. „Ég átti enn þá Sollu stirðu kjólinn og hárkolluna svo ég ákvað að skella mér í það og gera myndband,“ segir hún í samtali við Vísi um upphaf TikTok ferilsins. Í dag er hún með rúmlega 428.000 fylgjendur.

„Ég vissi að það myndi vekja athygli en mér datt ekki í hug að þetta færi viral,“ segir hún um myndbandið sem má sjá hér að neðan.

Myndbandið varð gríðarlega vinsælt og hafa yfir tuttugu og fjórar milljónir manna horft á það og má segja að Chloe sé í dag áhrifavaldur. Auk þess að vera á TikTok miðlinum erum hún virk á Instagram og gerir vikulegt video blogg á Youtube um líf sitt í New York. Hún deilir einnig myndböndum frá gömlu dögunum í Latabæ.

Ekkert stressuð að flytja

„Ég var ekkert stressuð,“ segir hún þegar hún horfir til baka á níu ára gömlu sig að pakka öllu saman og flytja til Íslands með mömmu sinni. „Mamma mín var kletturinn minn, hún sá um allt og passaði upp á það að ég væri ekki með neinar áhyggjur, ég var bara spennt“ segir hún í samtali við Vísi.

Chloe byrjaði að fara í prufur í Ameríku þar sem hún bjó þegar hún var aðeins sjö ára gömul og segist hún hafa farið í prufurnar fyrir Latabæ með sama hugarfari og hún fór í hinar. „Ég lærði línurnar mínar, gerði mitt besta og reyndi svo að ofhugsa það ekki.“ Skömmu eftir fyrstu prufurnar, þar sem hún hitti Magnús Scheving í fyrsta skipti, var hún kölluð aftur inn. 

Þar dansaði hún meðal annars Bing bang dansinn og skömmu síðar fékk hún símtalið um að hlutverkið væri sitt og að hún væri að fara að flytja til Íslands. Áður, í fyrstu tveimur þáttaröðunum, hafði hlutverkið verið í höndum Juliönnu Rose Mauriello.

Sundlaugarnar mesta menningarsjokkið

„Ég man eftir því að strax fyrsta daginn var farið með okkur í íslenska sundlaug og það var alveg smá menningarsjokk þar sem það er mjög ólíkt því sem tíðkast í Ameríku,“ segir hún og hlær af minningunni. Hún segir matinn á Íslandi einnig hafa verið ólíkan því sem þær mæðgur voru vanar en sjálf borðar hún ekki fisk. 

Fékk að vera barn

Þrátt fyrir að hafa alist upp í Latabæ, þar sem hún var í fullri vinnu, segist hún hafa fengið að upplifa það að vera barn og gera barnslega hluti. „Ég man þegar ég var að vinna verkefni í skólanum sem snerist um fallhraða eggja og helmingur teymisins, sem var allt fullorðið fólk, var komið í verkefnið með mér,“ rifjar hún upp.

„Við vorum öll á svölunum að kasta eggjum niður á jörðina og ég held að það sé ein af mínum uppáhalds minningum frá þessu tímabili því það var svo mikil samstaða og gleði.“

Elskar Ísland

„Við mamma elskum Ísland og komum í heimsókn á hverju ári. Náttúran heillar okkur alltaf jafn mikið í hvert skipti sem við komum.“ Mæðgurnar voru hér á landi í síðasta mánuði þar sem þær nýttu tímann í fjallgöngur þrátt fyrir sandstorma og almennt óheillandi veður. 

„Við látum smá óveður ekki stoppa okkur í því að njóta náttúrunnar.“

Framtíðin

Chloe er spennt að hella sér heilshugar í leiklistina þegar hún útskrifast úr skólanum í maí. Hún stundar nám í Pace University og er að læra skemmtana stjórnun (e. entertainment management) og vonast svo í framtíðinni til þess að geta verið umboðsmaður fyrir aðra. 

„Það eru nokkur spennandi verkefni framundan og svo hlakka ég til að sjá hvert ferillinn minn fer með mig í framtíðinni.“


Tengdar fréttir

Nýja Solla stirða frumsýnd - Framleiðslu á þriðju þáttaröð að ljúka

Verið er að ljúka við framleiðslu á þriðju seríu Latabæjar. Að sögn Einars Karls Birgissonar, svæðisstjóra Latabæjar á Íslandi, er eftirvinnsla í fullum gangi og fyrstu þættirnir hafa nú þegar verið sendir í talsetningu erlendis en samtals eru þættirnir talsettir á 30 tungumálum. Búist er við að síðustu þættirnir í þriðju seríu verði kláraðir í lok janúar og verða sýndir á sjónvarpsstöðvum um allan heim næsta vor. Hér á Íslandi verður þátturinn sýndur á Stöð 2.

Vilja Latabæ til Kína

Þýðingarmikið ef af verður, en Beijing TV nær til yfir 300 milljóna manna.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×