Innlent

Víða ó­gerningur að fá bókaðan tíma hjá lækni

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Óskar Reykdalsson segir um helming lækna Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í sumarfríi.
Óskar Reykdalsson segir um helming lækna Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í sumarfríi. vísir/vilhelm

Bið eftir tímum hjá heimilis­læknum hefur sjaldan verið lengri á höfuð­borgar­svæðinu og eru sumar heilsu­gæslu­stöðvar hættar að taka við tíma­bókunum. Ó­bókuðum komum fólks á heilsu­gæsluna hefur fjölgað gríðar­lega milli ára.

Þegar reynt er að bóka tíma hjá heimilis­lækni kemur þetta vanda­mál glögg­lega í ljós. Hjá Heilsu­gæslunni Mið­bæ er næsti lausi tími ekki fyrr en 5. októ­ber, eftir sjö vikur.

Í Sel­tjarnar­nes­bæ er hægt að komast að ör­lítið fyrr að - fyrsti lausi tíminn er eftir tæpar fjórar vikur; 12. septem­ber. Í Hlíðunum er staðan þó verst; enginn læknir á lausan tíma og því er ekkert hægt að bóka - menn verða bara að mæta.

„Já, það er dáldið löng bið núna. En það byggist svoldið á því, sérstaklega á undan­förnu ári, að þá hefur skyndi­komum fjölgað mjög mikið. Þannig við erum meira í að sinna bráða­vanda­málum heldur en áður,“ segir Óskar Reyk­dals­son, for­stjóri Heilsu­gæslunnar á höfuð­borgar­svæðinu.

Þarna lýgur Óskar engu. Aukningin í ó­bókuðum komum er gríðar­leg - rúm 28 prósent það sem af er ári ef miðað er við sama tíma­bil í fyrra. Þær hafa verið rúm­lega 63 þúsund í ár.

Ef ekki er laus tími en vandamálið er brýnt verður fólk bara að mæta á staðinn og bíða eftir að komast að.vísir/egill

En af hverju stafar þessi aukning?

„Ég veit það ekki alveg. En það er þannig að það er vísað meira á heilsu­gæsluna en áður og fólk þekkir okkur betur en áður. Og það er meira um að það sé verið að vísa fólki frá, til dæmis af bráða­mót­tökunni þar sem staðan hefur verið erfið og við tökum gjarnan við þeim vanda­málum sem eiga heima á heilsu­gæslunni,“ segir Óskar.

En hvað á fólk að gera í þessari stöðu? Þeir sem ekki geta beðið í margar vikur með að láta sinna sér í veikindunum velta þessu lík­lega fyrir sér.

„Við þurfum að sinna bráða­vanda­málum. Ef að fólk getur ekki beðið eftir bókuðum tíma þá verður það bara að mæta og þá tökum við að sjálf­sögðu á móti því fólki,“ segir Óskar.

Þetta er þó tíma­bundið vanda­mál, að mestu leyti, segir Óskar. Það er nefni­lega gífur­legur fjöldi lækna enn í sumar­fríi.

„Við erum kannski ekki með nema svona sirka helming lækna okkar í vinnu þessa dagana og það auð­vitað dregur úr skipu­lögðum tímum þegar það þurfa mjög margir af þeim læknum sem eru við vinnu að sinna bráða­þjónustu,“ segir Óskar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×