Innlent

Gæti liðið að goslokum á næstu dögum

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur. Vísir/Vilhelm

Dregið gæti að goslokum á næstu dögum að mati eldfjallafræðings þar sem hraunflæðið nálgast lágmarksþröskuld. Lokað er inn á svæðið í dag vegna veðurs

Gul viðvörun er í gildi á Reykjanesi líkt og víðar. Þar með er ekkert útivistarveður á gosslóðum í Meradölum og hefur svæðinu verið lokað á meðan veðrið gengur yfir.

Á meðan mallar gosið í einrúmi. Dregið hefur verulega úr hraunflæði sem mælist í besta falli þriðjungur af því sem var. Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur, segir flæðið þó virðast nokkuð stöðugt.

„Framleiðnin virðist vera að haldast á þessu bili og ef við horfum á það sem gerðist í nótt var það heldur meiri drifkraftur en var í gær í til dæmis,“ segir Þrovaldur.

Framleiðni í gosinu er rétt ofan við krítísk mörk og því gæti senn liðið að goslokum.vísir/Vilhelm

Þrátt fyrir að framleiðnin sé stöðug er hún við ákveðinn lágmarksþröskuld.

„Ef framleiðni fer mikið niður fyrir þrjá rúmmetra á sekúndu er orðið mjög erfitt að halda gosopinu opnu. Og framleiðnin, eins og hún er í dag, er að nálgast þessi krítísku mörk.“

Líkt og oft áður ríkir óvissa um framhaldið en Þorvaldur segir goslok þó mögulega nærri.

„Ef ég á að giska þykir mér líklegra að það dragi að lokum fljótlega, kannski eftir einhverja daga eða viku. Eitthvað svoleiðis. En hinn möguleikinn er líka alveg til staðar. Að gosið haldi áfram í einhverjar vikur eða mánuði.“

Bráð úr hrauninu sem rann úr gosinu í fyrra hefur verið að kreistast út vegna þunga frá nýja hrauninu, sem þekur nú ríflega einn ferkílómeter.

Þorvaldur bendir á að hraunið sem myndaðist í fyrra sé um fjörutíu metra þykkt og því mjög lengi að kólna. 

„Kjarninn í því hrauni er enn bráðinn og það tekur áratugi að kæla slíkt hraun niður. Þessi þyngsli voru bara nægilega mikil til þess að brjóta gat á skropuna á hrauninu í suðaustanverðum Meradölum og þrýsta þessari bráðnu kviku upp,“ segir Þorvaldur sem því mælir alfarið gegn göngu á gamla hrauninu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.