Innlent

Ás­laug Arna ferðast um landið í haust

Árni Sæberg skrifar
Áslaug Arna verður ráðherra án staðsetningar í haust.
Áslaug Arna verður ráðherra án staðsetningar í haust. Vísir/Vilhelm

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra mun staðsetja skrifstofu sína víða um land í haust. Fólkinu í landinu verður boðið í opna viðtalstíma þar sem málefni ráðuneytisins verða rædd.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir verður á fararfæti í haust en nýtt ráðuneyti hennar, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið er hugsað sem ráðuneyti án staðsetningar.

„Hugmyndin kviknaði þegar ég var að hugsa hvernig ráðuneyti sem væri búið til árið 2022 myndi starfa. Með þessu kynnist ég enn betur starfsemi sem tengist ráðuneytinu um allt land og fæ tækifæri til að prófa að starfa annars staðar en í Reykjavík,“ er haft eftir Áslaugu Örnu í fréttatilkynningu á vef Stjórnaráðsins.

Hér að neðan má sjá hvenær Áslaug Arna verður á hverjum stað í haust:

  • 18. ágúst – Snæfellsbær
  • 29. ágúst – Mosfellsbær
  • 5. september – Árborg
  • 12. september – Hafnarfjörður
  • 22. september – Múlaþing
  • 28. september – Akureyri
  • 10. október – Ísafjörður
  • 13. október – Reykjanesbær
  • 20. október – Vestmannaeyjar
  • 27. október – Akranes

Dagsetningar eru birtar með fyrirvara um breytingar á dagskrá ráðherra og nánari staðsetningar verða auglýstar síðar.

Starfsfólk geti unnið hvaðan sem er

Starfsemi ráðuneytisins er ekki bundin við einn ákveðinn stað en aðalstarfsstöð þess er í Reykjavík. Starfsmenn geta þannig ávallt unnið að heiman eða hvaðan sem er á landinu. Þetta mun Áslaug Arna sannreyna í haust og í leiðinni fá tækifæri til aukinnar tengslamyndunar og samstarfs við háskóla, stofnanir, fyrirtæki, sveitarfélög og einstaklinga um land allt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×