Menning

Ástin í öllum sínum formum

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Unnur Guðrún Þórarinsdóttir og Sigríður Hermannsdóttir.
Unnur Guðrún Þórarinsdóttir og Sigríður Hermannsdóttir. Aðsend

Parið Unnur Guðrún Þórarinsdóttir og Sigríður Hermannsdóttir sameina krafta sína í þágu hinsegin samfélagsins með sölu á listaverkum. Salan rennur til Samtakanna '78 og Hinseginleikans, sem bæði vinna mikilvægt og kraftmikið starf. Blaðamaður tók púlsinn á þeim Unni og Sigríði.

Unnur Guðrún hefur nám á Sviðshöfundabraut í Listaháskóla Íslands í haust og Sigríður er á leiðinni á annað ár í Ljósmyndaskólanum.

„Eftir mikil bakslög og umfjöllun um hinsegin samfélagið okkar tókum við þá ákvörðun að reyna að styðja við bak Samtakanna '78 og Hinseginleikans. Okkur finnst málefnið mjög mikilvægt og langar að safna fjármagni til þess að þessi samtök geti haldið áfram sínum störfum við að reyna að gera samfélagið að öruggari og betri stað,“ segja stelpurnar.

Sundferðir kveikja á hugmyndum

Parið hefur gaman að því að fara í sund og segir hinar ýmsu hugmyndir koma til þeirra í sundferðunum.

„Við getum spjallað endalaust og sérstaklega um hluti sem snerta okkur á einhvern hátt. Í einni af ófáum sundferðum sem við nýttum til þess að spjalla um þessi málefni fengum við þá hugmynd að nýta okkar áhugamál til þess að reyna hjálpa. Við þróuðum hugmyndina saman og prófuðum mismunandi myndir, texta, uppsetningar og fleira. Markmiðið var í raun bara að búa til falleg listaverk sem myndu um leið safna styrk fyrir hinsegin samfélagið.

Fyrsta hugmyndin var að hafa tvær andstæðar blómamyndir sem áttu að sýna fegurðina á því að vera trúr sjálfum sér og sorgina sem fylgir því ef það er ekki hægt, sorgin þegar fólk getur ekki verið það sjálft.

Þegar við þróuðum verkefnið lengra fundum við að okkur langaði að önnur myndin tengdist baráttu hinsegin samfélagsins og réttlætinu sem við viljum öll fá. Við höfum sterkar skoðanir og okkur langaði að leyfa þeim að fá sitt pláss í verkefninu.“

Öruggur staður fyrir hinsegin fólk

Svarthvíta myndin.Aðsend

Þær segja innblásturinn að framtakinu einnig koma frá Samtökunum '78 og Hinseginleikanum.

„Þetta eru samtök sem hafa barist eins og ljón fyrir réttindum okkar og verið með öruggan stað fyrir hinsegin fólk virkilega lengi. Starfsemi Hinseginleikans sem Ingileif og María standa fyrir hefur einnig gert mikið fyrir hinsegin samfélagið, þær standa fyrir fræðslu sem okkur finnst eitt það mikilvægasta til þess að berjast gegn fordómum.

Samstöðufundurinn sem þær héldu eftir það sem gerðist í Osló hvatti okkur í raun til þess að byrja að hugsa meira um málefni hinsegin fólks.

Þá kom hugmyndin um að nota svarthvítu myndina. Skilaboðin, sem eru aðalatriðið á myndinni, eru skýr og með textanum finnst okkur plakatið, sem og boðskapur þess, útskýra sig sjálft. Það eru því miður enn þann dag í dag fordómar í íslensku samfélagi og heiminum öllum. Sama hvað baráttan er sterk eru bakslögin mörg en við trúum að á endanum muni jafnréttið sigra. Við vildum halda skilaboðunum um ástina en blómamyndin er allt önnur en hún var fyrst. Plakatið með blómunum stendur fyrir ástinni í öllum sínum formum. Þegar við erum sjálfum okkur trú blómstrum við.“

„Fræ ég eitt sinn var, ég fagna ástinni og blómstra í dag.“Aðsend

Sigríður og Unnur eru með tvö ólík A3 plaköt til sölu með ljósmyndum og texta eftir þær.

„Hugmyndin um að hafa tvær ólíkar myndir og texta er sú að við viljum að sem flestir geti tengt við plakötin. Það er gaman að sjá hvað hugmynd getur orðið að stóru verkefni og við erum þakklátar fyrir öll þau sem hafa hjálpað okkur að safna styrkjum.“

Hér er hægt að skoða plakötin nánar og eru þau einnig seld í Hinsegin kaupfélaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×